Erlent

80 handteknir eftir þriðju nótt mótmæla

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum í St. Louis.
Frá mótmælum í St. Louis. Vísir/Getty
Lögreglan í St. Louis í Bandaríkjunum hefur handtekið rúmlega áttatíu manns eftir þriggja daga mótmæli. Efnt var til mótmæla eftir að lögregluþjónn var sýknaður af því að hafa myrt svartan mann. Einhverjir mótmælenda hafa verið sakaðir um skemmdarverk og óeirðir og jafnvel um að hafa ráðist á lögregluþjóna.

„Einhverjir glæpamenn réðust á lögregluþjóna og köstuðu efnum og grjóti að þeim. Öll meðsli voru smávægileg og þeir verða allir mættir fljótt aftur á vakti,“ sagði starfandi lögreglustjóri St. Louis, Larry O'Toole við fjölmiðla.

Lyfa Krewson, borgarstjóri, kenndi fáum aðilum um skemmdirnar og sagði ljóst að þegar hefðbundnum og friðsömum mótmælum hefði lokið, hefðu hópur aðila verið eftir til að valda usla. Hún sagði að slík hegðun yrði ekki liðin.

Mótmælin hófust í raun á föstudaginn þegar dómari úrskurðaði að lögregluþjónninn Jason Stockley væri saklaus af morðákæru. Hann skaut Anthony Lamar Smith til bana árið 2011. Stockley og annar lögregluþjónn höfðu þá veitt Smith eftirför vegna gruns um fíkniefnasölu.

Á upptöku úr lögreglubílnum mátti heyra Stockley segja: „Ég ætla að drepa þennan drullusokk“ um mínútu áður en hann skaut Smith fimm sinnum. Stockley sagðist hafa séð skammbyssu í hendi Smith en saksóknarar sögðu hann hafa komið byssunni fyrir.

Lífsýni úr Stockley fundust á byssunni en ekki lífssýni úr Smith.

Einnig sýna myndbönd að Stockley fór aftur í bíl sinn og teygði sig í tösku. Skömmu seinna settist hann upp í bíl Smith. Dómarinn segir að umrædd byssa hefði verið of stór til að rökrétt væri að Stockley hefði getað falið hana fyrir myndavélunum og það væri ólíklegt að Smith, sem hefði að öllum líkindum verið fíkniefnasali, ætti ekki byssu.

Hér að neðan má sjá myndband sem St. Louis Post-Dispatch hefur klippt saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×