Erlent

Eyðilegging og dauði blasir við eftir Harvey

Samúel Karl Ólason skrifar
Um 325 þúsund manns hafa þegar sótt eftir fjárhagslegri aðstoð frá ríkinu vegna skemmda vegna Harvey.
Um 325 þúsund manns hafa þegar sótt eftir fjárhagslegri aðstoð frá ríkinu vegna skemmda vegna Harvey. Vísir/EPA
Björgunarmenn fara nú um hverfi Houston, sem mörg eru enn að hluta til undir vatni, og leita að fórnarlömbum fellibylsins Harvey. Búið er að hækka opinbera tölu látinna í 39 en búist er við að hún muni hækka enn frekar. CNN segir minnst 47 vera látna.

Það mun taka íbúa borgarinnar mörg ár að laga allt sem skemmdist og það mun kosta milljarða dala. Ríkisstjóri Texas segir að það gæti tekið ríkið mörg ár að „grafa sig upp úr þessum hörmungum“.

Talið er að rúmlega 37 þúsund heimili hafi orðið fyrir verulegum skemmdum og tæplega sjö þúsund eru ónýt. Þar að auki urðu tugir þúsunda heimila fyrir lítilvægum skemmdum.

Um 325 þúsund manns hafa þegar sótt eftir fjárhagslegri aðstoð frá ríkinu vegna skemmda vegna Harvey, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Forgangsverkefni embættismanna á svæðinu er nú að finna húsnæði fyrir þær 32 þúsund manneskjur sem halda til í neyðarskýlum.

Sérfræðingar á sviði heilbrigðismála hafa varað við því að skólp sem skolaðist um allt í flóðunum geti gert fólk veikt og að fjöldi moskítóflugna geti tekið stökk á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×