Innlent

Umhverfisstofnun stöðvar starfsemi United Silicon

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kísilver United Silicon í Helguvík.
Kísilver United Silicon í Helguvík. VÍSIR/VILHELM
Umhverfisstofnun hefur ákveðið að stöðva starfsemi Sameinaðs Sílikons, að því er segir í fréttatilkynningu frá stofnuninni sem send var út í kvöld.

„Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um að stöðva starfsemi Sameinaðs Sílikons hf., sbr. 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga, nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Fyrirtækinu hefur verið kynnt sú ákvörðun með bréfi. Óheimilt er að endurræsa ofn verksmiðjunnar nema með skriflegri heimild frá Umhverfisstofnun að loknum fullnægjandi endurbótum og ítarlegu mati á þeim,“ segir í samantekt um ákvörðun Umhverfisstofnunar.

Í tilkynningu segir enn fremur að eftir gangsetningu verksmiðjunnar hafi Umhverfisstofnun borist ríflega eitt þúsund kvartanir frá íbúum Reykjanesbæjar vegna mengunar. Þá segir að frávik frá frá starfs­leyfi United Silicon séu alvarleg.

Þann 23. ágúst tilkynnti Umhverfisstofnun um áform sín um að stöðva rekstur Sameinaðs Sílikons hf. en vísað er í bréf þess efnis í tilkynningu. Rekstraraðila var veittur frestur til 30. ágúst til þess að skila inn athugasemdum við áform stofnunarinnar. Þá óskaði rekstraraðili eftir viðbótarfresti til 6. september, sem stofnunin hafnaði en veitti aftur frest til 31. ágúst. Í bréfi Sameinaðs Sílikon, sem sent var 31. ágúst til Umhverfisstofnunar, segir að vegna skamms tíma til andsvara sé tímasett úrbótaáætlun ekki endanlega tilbúin.

Því segir í niðurstöðu ákvörðunar Umhverfisstofnunar, meðal annars í ljósi alvarlegra frávika frá starfsleyfi United Silicon og kvartana frá íbúum, að starfsemin verði stöðvuð.

„Í bréfi stofnunarinnar, dags. 23. ágúst, var tilkynnt um áform um að stöðva starfseminu ef annað hvort afl ljósbogaofns verksmiðjunnar færi niður fyrir 10 MW eða stöðvaðist í klukkustund eða meira, þó eigi síðar en 10. september næstkomandi. Þann 26. ágúst síðasliðinn var ofn verksmiðjunnar stöðvaður í kjölfar óhapps sem varð í verksmiðjunni,“ segir í tilkynningu.

„Umhverfisstofnun stöðvar því hér með starfsemi Sameinaðs Sílikons hf.“


Tengdar fréttir

Áforma að slökkva á kísilverksmiðjunni

Verði ekki ráðist í úrbætur á verksmiðju United Silicon verður slökkt á henni í upphafi næsta mánaðar. Umhverfisstofnun sendi bréf þess efnis til fyrirtækisins í gærkvöldi.

Vandamál United Silicon víðtækara en við blasti

Umhverfisstofnun áformar að stöðva starfsemi United Silicon öðru sinni komist rekstur kísilversins ekki í eðlilegt horf. Forsvarsmönnum verksmiðjunnar var tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar með bréfi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×