Erlent

Trump heimsækir hamfarasvæði á ný

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Forsetahjónin eru nú komin til Houston í Texas-ríki en þau sjást hér stíga út úr flugvél sinni fyrr í dag.
Forsetahjónin eru nú komin til Houston í Texas-ríki en þau sjást hér stíga út úr flugvél sinni fyrr í dag.
Donald Trump Bandaríkjaforseti er mættur aftur til Houston í Texas-ríki í Bandaríkjunum með það að markmiði að hitta fyrir fórnarlömb Harveys, fellibylsins sem gekk á land í Bandaríkjunum í vikunni og olli skelfilegri eyðileggingu.

Forsetinn mun taka stöðuna á hjálparstarfi bæði í Houston í Texas-ríki, sem fór einna verst út úr flóðum í kjölfar Harveys, og Louisiana-ríki. Forsetafrúin Melania Trump er með í för en í frétt breska dagblaðsins The Guardian eru aðstoðarmenn í Hvíta húsinu sagðir binda vonir við að í þetta skiptið verði heimsókn forsetans laus við öll glappaskot.

Í tístinu hér að neðan, sem birt var á Twitter-reikningi forsetans, má sjá Donald og Melaniu Trump stíga út úr flugvél sinni í Houston í dag.

Trump var gagnrýndur fyrir viðbrögð sín við hörmungunum í Texas fyrr í vikunni þegar hann ávarpaði hóp fólks sem glímdi við eftirköst Harveys. Þar greip hann til málflutnings, sem minnti um margt á þann sem hann beitti í kosningabaráttu sinni  í fyrra, og nefndi sérstaklega mannfjöldann sem saman var kominn til að hlusta á sig.

Í gær sendi Trump Bandaríkjaþingi beiðni um 14,5 milljarða Bandaríkjadala í neyðaraðstoð svo hægt sé að hefja uppbyggingu í kjölfar eyðileggingarinnar í Texas og Louisiana. 7,8 milljarðar af þeirri upphæð, eða um 822 milljarðar íslenskra króna, verða leystir út til hjálparstarfs á næstu dögum en restin í lok mánaðar.

Talið er að minnst 47 manns séu látnir vegna Harveys og þá dvelja 43 þúsund manns í neyðarskýlum. Einhverjir hafa fengið að snúa aftur til síns heima en enn eru mikil flóð á nokkrum svæðum.


Tengdar fréttir

Efnaverksmiðja spýr eitri eftir Harvey

Regnvatn olli bilunum í efnaverksmiðju í Houston. Yfirmaður hamfaravarna segir útblástur frá verksmiðjunni afar hættulegan. Spreng­ingar heyrðust í nágrenni verksmiðjunnar í gær. Tala látinna heldur áfram að hækka í Texas. Stormurinn stefnir nú í norðausturátt.

7,8 milljarðar dala í neyðaraðstoð vegna Harvey

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sent Bandaríkjaþingi beiðni um 7,8 milljarða bandaríkjadala í neyðaraðstoð svo hægt sé að hefja uppbyggingu í kjölfar eyðileggingar eftir fellibylinn Harvey í Texas og Louisiana

Úr öskunni í eldmaurinn

Þúsundir árásargjarnra eldmaura fljóta saman á vatnselgnum sem lagt hefur heilu borgarhlutana í Texas í rúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×