Bíó og sjónvarp

Íslendingar á bakvið framlag Finna til Óskarsins

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ingvar Þórðarson og Hildur Guðnadóttir komu bæð að gerð myndarinnar Tom of Finland sem er framlag Finna til Óskarsins.
Ingvar Þórðarson og Hildur Guðnadóttir komu bæð að gerð myndarinnar Tom of Finland sem er framlag Finna til Óskarsins. Vísir

Kvikmyndin Tom of Finland hefur verið útnefnd sem framlag Finnlands til óskarsverðlauna. Tveir Íslendingar komu að gerð myndarinnar og fari það svo að myndin hljóti tilnefningu ættu íslendingar sinn fulltrúa á rauða dreglinum.

Ingvar Þórðarson er einn framleiðanda myndarinnar og þá er Hildur Guðnadóttir aðaltónskáld myndarinnar. Hefur tónlistin í Tom of Finland hlotið mikið lof gangrýnenda.

Myndinni hefur gengið vel á kvikmyndahátíðum og hlaut m.a. FIPRESCI-verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg og er tilnefnd af Evrópsku kvikmyndaakademíunni sem besta evrópska myndin fyrir árið 2017.

Pekka Strang fer með titilhlutverkið í myndinni.

Brautryðjandi í ímyndarsköpun samkynhneigðra

Tom of Finland er ævisöguleg kvikmynd um listamanninn Touko Laaksonen, sem öðlaðist heimsfrægð á 8. og 9. áratugi síðustu aldar fyrir teikningar sínar en fram að því höfðu verk hans farið víða meðal samkynhneigðra sem þurftu þá að glíma við ströng skilyrði ritskoðunar, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu.

Hann var ofsóttur fyrir kynhneigð sína í heimalandi sínu í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar en seinna höfðu teikningar hans mikil áhrif á ímyndarsköpun og tísku samkynhneigðra karlmanna. Verk Laaksonen hafa verið sýnd á listasöfnum um allan heim.

Tom of Finland verður ein burðarmynda á sérstökum finnskum fókus á RIFF í ár.

Í tengslum við sýningu myndarinnar á RIFF verður einnig sett upp sýning með teikningum Laaksonen í Háskólabíó á meðan hátíðinni stendur en RIFF fer fram dagana 28. september til 8. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×