Erlent

Trump styrkir hjálparsamtök um eina milljón Bandaríkjadala vegna Harvey

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump heimsótti Texas-ríki vegna hamfaranna í vikunni. Með honum í för var kona hans, Melania Trump.
Donald Trump heimsótti Texas-ríki vegna hamfaranna í vikunni. Með honum í för var kona hans, Melania Trump. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst láta eina milljón Bandaríkjadala af hendi rakna til hjálparstarfs í Texas-ríki í Bandaríkjunum en fellibylurinn Harvey hefur valdið þar gríðarlegu tjóni síðustu vikuna. Enn hefur ekki verið ákveðið hvaða hjálparstofnanir munu fá peninginn, að því er segir í frétt CNN-fréttastofunnar um málið.

„Hann vill vera með í átakinu sem við höfum séð marga, víðsvegar um landið, taka þátt í,“ sagði Sarah Huckabee Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins á blaðamannafundi í dag. Hún sagði umrædda upphæð, eina milljón Bandaríkjadala, vera úr einkasjóðum forsetans. Þá ávarpaði hún blaðamannafundinn og spurði viðstadda hvort þeir lumuðu á uppástungum um hjálparsamtök fyrir forsetann.

Á þriðjudag bað framboð forsetans stuðningsmenn sína um að styrkja hjálparsamtök á hamfarasvæðum í Texas. Þá gat Sanders ekki sagt til um það hvort forsetinn hygðist sjálfur styrkja hjálparsamtkök á svæðinu en að hann væri þó að „skoða málið.“

Björgunaraðgerðir standa enn yfir í Texas-ríki en um 33 þúsund manns hafast nú við í neyðarskýlum í kjölfar fellibylsins en 39 hafa nú látið lífið síðan hann gekk á land. Í dag var einnig greint frá því að efnaverksmiðja í útjaðri Houston í Texas mun annað hvort springa eða brenna til grunna á næstu dögum en flóðin miklu vegna Harveys hafa sökkt verksmiðjunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×