Erlent

Veita frekari upplýsingar um líkið í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Síðast sást til sænsku blaðakonunnar Kim Wall fimmtudaginn 10. ágúst
Síðast sást til sænsku blaðakonunnar Kim Wall fimmtudaginn 10. ágúst Vísir/EPA

Lögreglan í Kaupmannahöfn býst við því að geta veitt frekari upplýsingar um kvenmannslíkið, sem fannst sundurlimað í Köge-flóa við Kaupmannahöfn í gær, síðdegis í dag. Talið er að líkið geti verið af sænslu blaðakonunni Kim Wall sem saknað hefur verið síðan 10. ágúst.

Vísað er í færslu á Twitter-reikningi lögreglunnar í frétt danska ríkisútvarpsins um málið. Í færslunni, sem birt var í morgun, segir að lögregla muni gefa frekari upplýsingar um líkið í dag en þangað til biðst hún undan viðtölum.

„Búast má við nýjum upplýsingum varðandi kvenmannslíkið síðdegis í dag. Þangað til höfum við ekkert við málið að bæta. Við gefum ekki kost á viðtölum,“ skrifar lögreglan.

Hjólreiðamaður, sem var í hjólatúr meðfram ströndinni við Amager í Kaupmannahöfn, fann líkið í gær og tilkynnti strax um fundinn til lögreglu.

Líkið var sundurlimað og án höfuðs, handleggja og fóta. Peter Madsen, sem er í haldi lögreglu grunaður um aðild að hvarfi Wall, hefur viðurkennt að hafa varpað líki sænsku blaðakonunnar fyrir borð í kafbáti sínum. Slys hafi orðið um borð í bátnum sem hafi leitt til dauða hennar.

Síðast sást til hinnar þrítugu Wall fimmtudaginn 10. ágúst en hún var með Madsen í kafbátnum í þeim tilgangi að skrifa um kafbátinn og siglinguna. Madsen var handtekinn laugardaginn eftir að Wall hvarf, grunaður um manndráp af gáleysi, eftir að kafbáturinn UC3 Nau­tilus sökk á föstudeginum.


Tengdar fréttir

Lík fannst þar sem Kim Wall er leitað

Danska lögreglan hefur fundið lík af kvenmanni á þeim slóðum þar sem að leitað hefur verið að líki sænsku blaðakonunnar.

Brotlending hins danska Geimflauga-Madsen

Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen er mjög þekktur maður í Danmörku. Sú staðreynd að hann sitji nú í gæsluvarðhaldi vegna hvarfs sænsku blaðakonunnar Kim Wall hefur vakið gríðarlega athygli í heimalandi hans og raunar um heim allan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×