Viðskipti innlent

Afkoma N1 veldur vonbrigðum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
EBIDTA N1 dróst saman um 30% á milli ára.
EBIDTA N1 dróst saman um 30% á milli ára. vísir/vilhelm
Sala og framlegð olíufélagsins N1 á öðrum fjórðungi ársins olli vonbrigðum að mati hagfræðideildar Landsbankans sem segir að svo virðist sem félagið finni fyrir áhrifum af samkeppninni við bandaríska risann Costco. Rekstrarhagnaður félagsins á tímabilinu var rúmlega 300 milljónum króna lægri en sérfræðingar Landsbankans og IFS greiningar höfðu spáð.

Fjárfestar virðast ekki hafa tekið vel í uppgjör olíufélagsins fyrir annan fjórðung ársins, en til marks um það lækkuðu hlutabréf í félaginu um 5,8 prósent í verði í gær.

Fjárfestar sem Fréttablaðið ræddi við furða sig á því af hverju stjórnendur N1 hafi ákveðið að halda afkomuspá sinni óbreyttri fyrir árið, en stjórnendurnir gera áfram ráð fyrir að EBIDTA – rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – verði á bilinu 3.500 til 3.600 milljónir króna á árinu, að undanskildum kostnaði við fyrirhuguð kaup félagsins á Festi.

EBIDTA félagsins var 768 milljónir króna á öðrum fjórðungi ársins og lækkaði um heil þrjátíu prósent á milli ára. Hagfræðideild Landsbankans og IFS greining gerðu hins vegar ráð fyrir að rekstrarhagnaðurinn myndi haldast nokkuð óbreyttur eða lækka um örfá prósent á milli ára.

Hagfræðideild Landsbankans bendir á að í ljósi afkomu N1 á öðrum fjórðungi ársins þurfi EBIDTA á seinni helmingi þessa árs að vera 64 milljónum króna hærri en hún var á seinni helmingi síðasta árs til þess að spá stjórnendanna gangi eftir. 


Tengdar fréttir

Hlutabréf í N1 taka dýfu

Gengi hlutabréfa í olíufélaginu N1 hefur lækkað um 5,81 prósent í 242 milljóna viðskiptum það sem af er degi.

GAMMA með 263 milljóna skortstöðu í N1

Fjármálafyrirtækið GAMMA Capital Management er með 263 milljóna króna skortstöðu í olíufélaginu N1, samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu. Fyrirtækið tilkynnti eftirlitinu um skortstöðuna 10. ágúst síðastliðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×