Fótbolti

Guardiola: Napólí eitt af þrem bestu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var ósammála því að liðið hefði dregist í auðveldan riðil í Meistaradeild Evrópu og sagði Napólí, eina af andstæðingum liðsins, vera eitt af þremur bestu liðum Evrópu.

„Við munum mæta liðinu sem spilaði besta fótboltann á Ítalíu. Þeir eru frábærir á boltanum og að mínu mati eitt af þremur bestu liðum Evrópu í dag,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi fyrir leik City gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni sem fram fer á morgun.

City lenti í riðli með Shakhtar Donetsk, Feyenoord og Napólí, en dregið var í riðla í gær. Enska stórliðið er af flestum talið sigurstranglegast í riðlinum.

Sjá einnig: United og Liverpool sluppu vel | Tottenham í erfiðum riðli

„Napólí var í þriðja styrkleikaflokki og það var besta liðið í þeim flokki. Maður býst við að liðin í styrkleikaflokkum 1 og 2 séu sterk, en í dag eru öll liðin sterk. Allir geta unnið alla.“

Guardiola var einnig spurður út í Alexis Sanchez, sem hefur mikið verið orðaður við City í sumar.

„Hann er leikmaður Arsenal. Alveg eins og Mbappe er leikmaður Mónakó og Jonny Evans er leikmaður West Bromwich Albion.“

„Þú verður að spyrja Alexis. Ég ræði ekki leikmenn frá öðrum félögum.“

Leikur Bournemouth og Manchester City er sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í hádeginu á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×