Erlent

Viðbragðsaðilar að drukkna í hjálparbeiðnum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úrhellið er ekki á förum.
Úrhellið er ekki á förum. Vísir/Getty
Strandgæsla Bandaríkjanna tekur nú við rúmlega 1000 símtölum á klukkustund frá fórnarlömbum fellibylsins Harvey. Síðan fellibylurinn gekk á land í Texas á föstudag hafa björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar þurft að flytja þúsundir strandaglópa af hamfarasvæðinu.

Í samtali við CNN segir liðþjálfi hjá strandgæslunni um séu að ræða bæði bjarganir úr lofti og með aðstoð lítilla báta sem henti vel til siglinga á landi. „Bara í dag (mánudag) höfum við bjargað rúmlega 3000 manns,“ er haft eftir liðþjálfanum. Mikið úrhelli hefur fylgt hvassviðrinu og er vatnið sem liggur nú yfir borgum og bæjum um 75 sentímetra djúpt. Ekkert lát virðist ætla að verða á rigningunni á næstunni og talið er að hún kunni jafnvel að aukast þegar líða tekur á vikuna.

Strandgæslan er þó ekki ein um að fá þúsundir hjálparbeiðna. Slökkviliðið í Houston hefur svarað rúmlega 2300 símtölum frá því á mánudagsmorgunn, þar af bárust 400 símtöl uppúr miðnætti í nótt að íslenskum tíma.

Lögreglan í borginni hefur að sama skapi haft í nógu að snúast. Að sögn borgarstjóra Houston hefur hún nú bjargað liðlega 3000 manns síðan á föstudag, þar af 1000 bara í gær.

Almannavarnir í Bandaríkjunum búast við því að 450.000 sæki um hjálp vegna Harvey. Talið er að allt að 30.000 manns gætu þurft að hafast við í tímabundum neyðarskýlum.

Fjórir hafa látið lífið í hamfaraflóðunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×