Erlent

Harvey ber áfram í bakkafullan lækinn í Houston

Kjartan Kjartansson skrifar
Þúsundum borgarbúa í Houston hefur verið bjargað undan flóðunum síðustu dagana.
Þúsundum borgarbúa í Houston hefur verið bjargað undan flóðunum síðustu dagana. Vísir/AFP
Veðurspár gera ráð fyrir að allt þrjátíu sentímetra úrkoma geti fallið í Houston í Bandaríkjunum í dag. Borgin er þegar á kafi eftir fordæmalausar rigningar síðustu daga. Heildarúrkoman gæti þá nálgast 130 sentímetra á örfáum dögum.

Gangi spárnar eftir mun vatnselgurinn í þessari fjórðu fjölmennustu borg Bandaríkjanna enn aukast. Yfir þrjátíu þúsund manns hafa þegar þurft að flýja heimili sín vegna hitabeltisstormsins Harvey sem var öflugur fellibylur þegar hann gekk á land í Texas á föstudagskvöld.

Að minnsta kosti níu manns eru látnir á Houston-svæðinu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Sex meðlimir sömu fjölskyldu fórust meðal annars í bíl á flótta undan flóðunum. Lögreglustjórinn í Houston óttast að þegar flóðin sjatni muni fjöldi líka finnast.

Harvey er nú byrjaður að teygja anga sína yfir nágrannaríkið Lúisíana og búa borgarbúar í New Orleans sig undir flóð, minnugir hörmunganna sem fellibylurinn Katrina leiddi yfir þá árið 2005.

Til stendur að Donald Trump Bandaríkjaforseti heimsæki Texas og mögulega Lúisíana í dag, þó ekki Houston. Hann hefur heitið því að senda neyðaraðstoð til ríkjanna sem verða fyrir Harvey í snatri.


Tengdar fréttir

Trump heldur til Texas á þriðjudag

Yfir tvö þúsund hefur verið bjargað frá hamfaraflóðunum í Texas. Búið er að staðfesta þrjú dauðsföll af völdum fellibylsins en talið er að þau séu mun fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×