Innlent

Birta yfirlit yfir þá sem hlotið hafa uppreist æru

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sigríður Á. Andersen er dómsmálaráðherra. Ráðuneyti hennar birti listann.
Sigríður Á. Andersen er dómsmálaráðherra. Ráðuneyti hennar birti listann. Vísir
Dómsmálaráðuneytið hefur birt yfirlit yfir refsilagabrot allra þeirra sem sótt hafa um uppreist æru árin 1995 til 2017.

Yfirlitið er birt í kjölfar fundar ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins með stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þann 18. júlí síðastliðinn þar sem farið var yfir stjórnsýsluframkvæmd varðandi beiðnir um uppreist æru. Ráðuneytið sendi nefndinni listann og hefur nú birt hann á vef sínum og hægt er að nálgast hann með því að smella hér.

Yfirlitinu er skipt í tvennt eftir því hvort fallist hefur verið á beiðni um uppreist æru eða ekki. Engin nöfn eru tilgreind, einungis tegund brots og lengd dóms. 

Alls fengu 32 uppreist æru á árabilinu sem um ræðir. Þar af höfðu fimm hlotið dóma fyrir kynferðisbrot, þrír þeirra gegn börnum og þrír verið dæmdir fyrir morð.

Þá var 54 umsækjendum hafnað um uppreist æru. Ólíkt listanum yfir þá sem fengu uppreist æru er ástæða synjunar tiltekin. Algengustu ástæður synjunar eru að um skilorðsbundinn dóm hafi verið að ræða eða að máli þeirra hafi lokið með sekt.

Yfirlitin í heild sinni má nálgast með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×