Enski boltinn

Klopp: Allt í lagi úrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp þakkar fyrir leikinn í kvöld.
Jürgen Klopp þakkar fyrir leikinn í kvöld. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var ekkert alltof ánægður eftir 2-1 sigur Liverpool á Hoffenheim í Þýskalandi í kvöld en þetta var fyrri leikur liðanna í umspili um laust sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í vetur.

Liverpool hafði heppnina með sér í leiknum því Hoffenheim klúðraði víti í upphafi leiks og fleiri góðum færum. Þýska liðið á hinsvegar ennþá von í seinni leiknum í Englandi eftir að liðið minnkaði muninn undir lokin.

„Hoffenheim lagði þennan leik upp á ákveðinn hátt. Við tókum of mikla áhættu á vængjunum og það skapaði þó nokkra hættu í fyrri hálfleiknum,“ sagði Jürgen Klopp í viðtali við BT Sport eftir leik en Liverpool liðið fékk líka færi til að skora fleiri mörk.

„Eins og alltaf þegar við spilum fótbolta þá fundum við svæði til að sækja í og sköpuðum góð færi,“ sagði Klopp.

„Þetta eru svona allt í lagi úrslit. Nú er fyrri hálfleikurinn að baki og ég hefði alltaf sætt mig við sigur fyrir leikinn,“ sagði Klopp.

„Við þurfum á Anfield að halda. Það er núna hægt að fara að hlakka til Evrópukvölds á Anfield í næstu viku,“ sagði Klopp en hvað með mikla mótstöðu frá Hoffenheim í kvöld?

„Þetta kom aðeins þeim á óvart sem þekkja ekki Hoffenheim,“ sagði Klopp.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×