Fótbolti

Real Madrid vann Barcelona aftur og 5-1 samanlagt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karim Benzema fagnar marki sínu í kvöld.
Karim Benzema fagnar marki sínu í kvöld. Vísir/Getty
Real Madrid er meistari meistaranna á Spáni eftir 2-0 sigur á Barcelona í kvöld í Súperbikarnum á Spáni.

Real Madrid vann því báða leiki liðanna og 5-1 samanlagt en leikurinn í kvöld fór fram á heimavelli Real Madrid.

Spænsku meistararnir og spænsku bikarmeistararnir mætast í þessum árlegu viðureignum en spilað er á heimavöllum beggja liða. Þetta er í tíunda sinn sem Real Madrid vinnur Súperbikarinn á Spáni en Barceona vann hann í tólfta sinn í fyrra. Real-menn höfðu ekki unnið hann frá 2012.

Real Madrid var í frábærri stöðu eftir 3-1 sigur á Barcelona á Nývangi um síðustu helgi og kláruðu dæmið snemma í kvöld með því að komast í 1-0 eftir aðeins fjögurra mínútna leik.

Marco Asensio skoraði markið með laglegu skoti en hann skoraði einnig í fyrri leiknum. Karim Benzema bætti síðan við öðru marki sex mínútum fyrir hálfleik.

Cristiano Ronaldo var fjarri góðu gamni í kvöld eftir rauða spjaldið í fyrri leiknum en það skipti ekki máli. Zinedine Zidane gat líka leyft sér að hvíla þá Gareth Bale og Isco á bekknum.

Lucas Vázquez, Karim Benzema og Marco Asensio voru í þriggja manna framlínu liðsins og tveir af þeim skoruðu.

Þetta er enn einn bikarinn sem Zinedine Zidane vinnur sem þjálfari Real Madrid en þeir eru núna orðnir sjö talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×