Í hvers nafni? Bergur Ebbi skrifar 18. ágúst 2017 06:00 Ef upp kæmi sú staða að menn með sveðju réðust á mig í nafni einhvers, þá myndi ég ekki vita hverju ég myndi svara. Sveðjumennirnir myndu kannski öskra: „Í Guðs nafni“ og ég myndi líklega ekki rökræða neitt meira um það heldur bara reyna að forða mér. Ég myndi mjög ólíklega ná að vitna í John Lennon og benda á að „Guð sé konsept sem við notum sem mælistiku á sársauka“, sem væru glettileg lokaorð manns sem er við það að deyja af sveðjusárum. Nei. Auðvitað myndi ég ekki segja neitt, enda snýst fókus þjóðmálaumræðunnar ekki um að mæta hermönnum Guðs í nafni neins, þó að það væri vissulega fréttnæmt ef maður næði að hrópa nafn fótboltaliðs síns eins og Breti einn gerði þegar þrír sveðjuvopnaðir menn réðust á hann í hryðjuverkunum í London í júní síðastliðnum.„Fuck you. I’m Millwall“ Því miður virðist ekkert lát á hryðjuverkum í heimsfréttunum. Við hverja árás líður manni eins og ógnin sé sífellt stærri og meiri þó að tölfræði segi manni að dauðsföll vegna hryðjuverkaárása séu ekki í neinum sérstökum vexti í okkar heimshluta. Staðreyndin er sú, að sé miðað við skyndileg dauðsföll almennt þá látast í raun afar fáir vegna hryðjuverkaárása. Kannski er óhugurinn sem hryðjuverk valda fremur fólginn í því að Homo sapiens sé í raun og veru reiðubúinn að drepa hver annan í nafni hugmynda. Því hryðjuverk eru hugmyndafræðileg dráp og það gerir þau sérlega andstyggileg. Fólk er nefnilega drepið hægri vinstri út af græðgi, afbrýði, heimsku, hormónum eða jafnvel vegna misskilnings án þess að við herpumst saman af ótta yfir því. Dráp eru tíð. En dráp með fagurfræðilegan tilgang eru það ekki. Hryðjuverk eru í síðari flokknum. Dráp í Guðs nafni er ákveðið rothögg fyrir samfélög sem fyrir því verða, því ef Guð er tengdur nafni drápsins – í nafni hvers á maður þá að verja sig? „Farið fjandans til, ég er Millwall“ á hinn 47 ára Breti að hafa sagt þegar hann mætti sveðjumönnunum með hnefunum einum. Það er vissulega hetjuleg frammistaða. En áhugaverðast þykir mér þó hvað geri fótboltaliðið Millwall að slíku trompi að það skáki jafnvel nafni Guðs. Það er að vísu röng nálgun. Það sem skiptir máli er að trúa því að eitthvað geti veitt manni styrk á ögurstundu – það skiptir kannski ekki máli hvað það er – þó að póstmódernískir greiningar-sérfræðingar geti velt vöngum yfir því fram og til baka um alla framtíð. „Áfram Valur“ myndi ég þá kannski segja ef sveðjuvopnaðir menn réðust á mig í nafni Guðs og kannski yrði það túlkað sem sykurskert útgáfa af „Áfram Kristsmenn, krossmenn“ og lítið sem ég gæti gert í því hvort heldur ég væri lífs eða liðinn.Kvíði frændi Ég er síður en svo sá fyrsti sem veltir þessu fyrir sér. Að í fánýti nútímans vanti ekki bara guðlega nánd heldur hreinlega fókus. Ég er ekki að tala um að fólk þurfi að trúa á vísdóm gamalla bóka eða kveikja á reykelsi í kirkjum. Ég er bara að tala um að hafa einhverja sannfæringu sem er nógu sterk til að hún sé það fyrsta sem komi upp í hugann þegar ráðist er á mann í nafni Guðs. Það er frelsandi að taka engu sem sjálfsögðum hlut. Ég myndi ekki vilja skipta því út fyrir neitt annað fyrirkomulag. Með réttri innrætingu er einnig vel hægt að efast um afstöðu annarra án þess að sýna henni vanvirðingu. En ef æðsta gildi lífsins er efasemdin – ef það má orða það svo – er líklegt að því fylgi fórnarkostnaður. Það er mikið rætt um kvíða. Börn þjást af kvíða. Karlmenn þjást af kvíða. Konur þjást af kvíða. Og ekki ætla ég að gera lítið úr því. Ég finn hann líka stundum. Ég þekki hann. Hann hefur áferð? Hann hellist yfir mann – eins og heitur brennisteinsvökvi sem fossast inn í tæra lind. Hvað þýðir annars þetta orð? Kvíði? Það hljómar eins og kviður og soldið líka eins og sviði. Þannig þekki ég líka kvíðann, frænda minn. Hann hefst þannig að mig svíður í kviðinn. Ég þekki þann djöful um leið og hann byrjar að skjóta gneistum sínum í gegnum taugakerfið. Og ég veit að hann mun aldrei fara. Sama hversu mikið ég opna mig, sama hversu mikið ég leita út á við. Hann mun aldrei hverfa endanlega. Því það sem ég kvíði hefur að gera með hvað liggi handan efasemda minna, handan greininganna, handan rökfræðinnar og sjálfsánægju augnabliksins. Hvað trúi ég í raun á? Hver er loka niðurstaðan þegar ég sé glitta í sveðjurnar? Fucking Millwall? Áfram Valur? Lifi frelsið? Lifi augnablikið, efasemdirnar, glampinn í augunum? Í nafni hvers? Hvað er stærra en ég og mín auma heimsmynd? Og þetta er líka ástæðan fyrir því að fjölmiðlar og hefðbundin greiningartæki samfélags okkar ná ekki utan um stóru spurningarnar sem snúa að hryðjuverkum og djúpum hugmyndaágreiningi. Efasemdir og upplýsingar hafa fært okkur svo margt, jafnvel lækningu við sjúkdómum huga og líkama. En efasemdir geta aldrei sviðið kvíða frænda úr hjartahólfi. Í nafni Vals, Millwall og heilags Ono Lennon, þó þú trúir kannski engu þá máttu vel trúa því. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bakþankar Bergur Ebbi Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Ef upp kæmi sú staða að menn með sveðju réðust á mig í nafni einhvers, þá myndi ég ekki vita hverju ég myndi svara. Sveðjumennirnir myndu kannski öskra: „Í Guðs nafni“ og ég myndi líklega ekki rökræða neitt meira um það heldur bara reyna að forða mér. Ég myndi mjög ólíklega ná að vitna í John Lennon og benda á að „Guð sé konsept sem við notum sem mælistiku á sársauka“, sem væru glettileg lokaorð manns sem er við það að deyja af sveðjusárum. Nei. Auðvitað myndi ég ekki segja neitt, enda snýst fókus þjóðmálaumræðunnar ekki um að mæta hermönnum Guðs í nafni neins, þó að það væri vissulega fréttnæmt ef maður næði að hrópa nafn fótboltaliðs síns eins og Breti einn gerði þegar þrír sveðjuvopnaðir menn réðust á hann í hryðjuverkunum í London í júní síðastliðnum.„Fuck you. I’m Millwall“ Því miður virðist ekkert lát á hryðjuverkum í heimsfréttunum. Við hverja árás líður manni eins og ógnin sé sífellt stærri og meiri þó að tölfræði segi manni að dauðsföll vegna hryðjuverkaárása séu ekki í neinum sérstökum vexti í okkar heimshluta. Staðreyndin er sú, að sé miðað við skyndileg dauðsföll almennt þá látast í raun afar fáir vegna hryðjuverkaárása. Kannski er óhugurinn sem hryðjuverk valda fremur fólginn í því að Homo sapiens sé í raun og veru reiðubúinn að drepa hver annan í nafni hugmynda. Því hryðjuverk eru hugmyndafræðileg dráp og það gerir þau sérlega andstyggileg. Fólk er nefnilega drepið hægri vinstri út af græðgi, afbrýði, heimsku, hormónum eða jafnvel vegna misskilnings án þess að við herpumst saman af ótta yfir því. Dráp eru tíð. En dráp með fagurfræðilegan tilgang eru það ekki. Hryðjuverk eru í síðari flokknum. Dráp í Guðs nafni er ákveðið rothögg fyrir samfélög sem fyrir því verða, því ef Guð er tengdur nafni drápsins – í nafni hvers á maður þá að verja sig? „Farið fjandans til, ég er Millwall“ á hinn 47 ára Breti að hafa sagt þegar hann mætti sveðjumönnunum með hnefunum einum. Það er vissulega hetjuleg frammistaða. En áhugaverðast þykir mér þó hvað geri fótboltaliðið Millwall að slíku trompi að það skáki jafnvel nafni Guðs. Það er að vísu röng nálgun. Það sem skiptir máli er að trúa því að eitthvað geti veitt manni styrk á ögurstundu – það skiptir kannski ekki máli hvað það er – þó að póstmódernískir greiningar-sérfræðingar geti velt vöngum yfir því fram og til baka um alla framtíð. „Áfram Valur“ myndi ég þá kannski segja ef sveðjuvopnaðir menn réðust á mig í nafni Guðs og kannski yrði það túlkað sem sykurskert útgáfa af „Áfram Kristsmenn, krossmenn“ og lítið sem ég gæti gert í því hvort heldur ég væri lífs eða liðinn.Kvíði frændi Ég er síður en svo sá fyrsti sem veltir þessu fyrir sér. Að í fánýti nútímans vanti ekki bara guðlega nánd heldur hreinlega fókus. Ég er ekki að tala um að fólk þurfi að trúa á vísdóm gamalla bóka eða kveikja á reykelsi í kirkjum. Ég er bara að tala um að hafa einhverja sannfæringu sem er nógu sterk til að hún sé það fyrsta sem komi upp í hugann þegar ráðist er á mann í nafni Guðs. Það er frelsandi að taka engu sem sjálfsögðum hlut. Ég myndi ekki vilja skipta því út fyrir neitt annað fyrirkomulag. Með réttri innrætingu er einnig vel hægt að efast um afstöðu annarra án þess að sýna henni vanvirðingu. En ef æðsta gildi lífsins er efasemdin – ef það má orða það svo – er líklegt að því fylgi fórnarkostnaður. Það er mikið rætt um kvíða. Börn þjást af kvíða. Karlmenn þjást af kvíða. Konur þjást af kvíða. Og ekki ætla ég að gera lítið úr því. Ég finn hann líka stundum. Ég þekki hann. Hann hefur áferð? Hann hellist yfir mann – eins og heitur brennisteinsvökvi sem fossast inn í tæra lind. Hvað þýðir annars þetta orð? Kvíði? Það hljómar eins og kviður og soldið líka eins og sviði. Þannig þekki ég líka kvíðann, frænda minn. Hann hefst þannig að mig svíður í kviðinn. Ég þekki þann djöful um leið og hann byrjar að skjóta gneistum sínum í gegnum taugakerfið. Og ég veit að hann mun aldrei fara. Sama hversu mikið ég opna mig, sama hversu mikið ég leita út á við. Hann mun aldrei hverfa endanlega. Því það sem ég kvíði hefur að gera með hvað liggi handan efasemda minna, handan greininganna, handan rökfræðinnar og sjálfsánægju augnabliksins. Hvað trúi ég í raun á? Hver er loka niðurstaðan þegar ég sé glitta í sveðjurnar? Fucking Millwall? Áfram Valur? Lifi frelsið? Lifi augnablikið, efasemdirnar, glampinn í augunum? Í nafni hvers? Hvað er stærra en ég og mín auma heimsmynd? Og þetta er líka ástæðan fyrir því að fjölmiðlar og hefðbundin greiningartæki samfélags okkar ná ekki utan um stóru spurningarnar sem snúa að hryðjuverkum og djúpum hugmyndaágreiningi. Efasemdir og upplýsingar hafa fært okkur svo margt, jafnvel lækningu við sjúkdómum huga og líkama. En efasemdir geta aldrei sviðið kvíða frænda úr hjartahólfi. Í nafni Vals, Millwall og heilags Ono Lennon, þó þú trúir kannski engu þá máttu vel trúa því.