Viðskipti innlent

Sviptingar á vöruverði Costco og keppinautar bregðast við

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Costco hefur notið mikilla vinsælda hjá Íslendingum fyrir lágt vöruverð. Sviptingar hafa þó orðið á því undanfarna mánuði.
Costco hefur notið mikilla vinsælda hjá Íslendingum fyrir lágt vöruverð. Sviptingar hafa þó orðið á því undanfarna mánuði. Vísir/Ernir
Fleiri vörur úr verðsamanburði Fréttablaðsins frá því í maí hafa hækkað í verði en lækkað samkvæmt nýrri verðathugun blaðsins. Verðkönnun Fréttablaðsins í gær sýnir að sviptingar hafa orðið á verði í Costco síðan verslunin var opnuð, bæði til hækkunar og lækkunar.

Mest er hækkunin 34% á gosi en mesta lækkunin er rúm 25% á pylsu­máltíð. Af verðkönnun Fréttablaðsins að dæma virðast keppinautar í einhverjum tilfellum hafa brugðist við samkeppninni frá Costco og lækkað verð.

Af þeim níu vörum sem Fréttablaðið hafði verðsamanburð á frá því í maí höfðu fjórar hækkað í verði, þrjár lækkað í verði og verð tveggja haldist óbreytt. Sex þessara vara birtust í könnun blaðsins þann 24. maí þar sem verð í Costco var borið saman við verð annarra verslana á sömu vörum.

Nú, tæplega þremur mánuðum eftir opnun verslunarinnar sem skók íslenskt samfélag, lék Fréttablaðinu forvitni á að vita hvernig verð hefði þróast.

Sjá má að Bónus hefur á tímabilinu lækkað verð á vörum úr fyrri samanburði. Verð á stykkinu af lítilli dós af Pepsi Max hefur lækkað úr 78 kr. í 69 kr. en hún er þó enn 22 krónum dýrari en í Costco, þrátt fyrir að þar hafi verðið hækkað um rúm 34% á tímabilinu. Taka ber fram að í fyrri könnun blaðsins var verð á Pepsi Max kannað en í gær var aðeins hið sambærilega Diet Pepsi til í versluninni. Þá ber að hafa í huga að gosdrykkurinn er seldur í 24 stykkja pakkningum í Costco.

Bónus hefur jafnað Costco í verði á SS pylsusinnepi eftir 10% hækkun hjá Costco og tæplega 2% lækkun hjá Bónus. Í báðum verslunum kostar flaskan nú 329 krónur en áður munaði 36 krónum Costco í vil.

Verulegur verðmunur var á Panodil Hot-verkjalyfi hjá Costco og Lyfjum og heilsu í fyrri könnun. Lyfið kostar enn 929 krónur í Costco en Lyf og heilsa hefur lækkað verð sitt um tæp 19%, úr 1.459 krónum í 1.184 kr.

Eftir að hafa skákað Costco í verði á tilteknum Bose-hátalara í fyrri könnun Fréttablaðsins hefur dæmið snúist við hjá Elko. Costco lækkaði verð sitt um 9,3% á meðan verð Elko hækkaði um 20% á sama tíma. Er græjan nú tæplega 4.500 krónum dýrari í Elko.

Levi’s 501 gallabuxur sem kostuðu 6.399 kr. í Costco í maí kosta í dag 5.899 kr. og hefur verðið því lækkað um 7,8% á meðan Levi‘s búðin í Kringlunni hefur haldið verði sínu á sömu vöru óbreyttu, eða 11.990 kr.

Fréttablaðið skoðaði einnig verð á þremur öðrum vörum sem ekki voru í fyrri samanburði blaðsins. Tvær þeirra hafa hækkað í verði. Kíló af hinum vinsælu kirsuberjum hefur hækkað um 7,7% og 55" Philips UHD snjallsjónvarp um 5%. Driscoll's jarðar­berin sívinsælu hafa staðið í stað. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×