Viðskipti innlent

Bónus byrjað að selja Nespresso hylki

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sjö tegundir verða seldar til að byrja með.
Sjö tegundir verða seldar til að byrja með. Vísir/Getty
Verslanir Bónus hófu í dag sölu á Nespresso kaffihylkjum. Áður hafa Nespresso kaffivélar verið seldar á landinu en eigendur þeirra þurft að kaupa kaffihylkin erlendis eða flytja þau til landsins í gegnum póstinn með því að versla á vefsíðu svissneska fyrirtækisins eða í erlendum sérverslunum. Verslunin Fitness Sport hefur þó selt kaffihylkin af og til.

„Ef verður einhver eftirspurn eftir þessu þá munum við halda áfram að selja þetta svo framarlega sem við fáum þetta,“ segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus.  „Við erum ekki að taka þetta beint af framleiðanda heldur af millilið."

Sjö tegundir verða seldar til að byrja með. „Þetta er vara sem fólk hefur verið að taka með sér erlendis frá þannig að ég geri bara ráð fyrir því að verði góð eftirspurn eftir þessu,“ segir Guðmundur.

Í maí greindi Fréttablaðið frá því að verslunarfyrirtækið Festi hf. ætti samkvæmt heimildum Markaðarins í viðræðum um innflutning á Nespresso kaffihylkjum. Einnig skoðaði fyrirtækið opnun verslunar sem myndi eingöngu selja hylkin sem eru nokkuð eftirsótt hér á landi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×