Erlent

Áttundi gesturinn á fundi Trump yngri nafngreindur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Starfsmaður rússnesks fasteignafyrirtækis var viðstaddur fund Donalds Trump yngri og rússnesks lögfræðings í Trump-turni í júní á síðasta ári. Starfsmaðurinn, sem starfaði í Bandaríkjunum, er sá áttundi í röð fundargesta sem hafa verið nafngreindir.

Starfsmaðurinn heitir Ike Kaveladze en Scott Balber staðfesti að Kaveladze hefði verið á fundinum samkvæmt frétt Washington Post. Barber er lögfræðingur feðganna Emin og Aras Agalarov, fyrrverandi viðskiptafélaga Bandaríkjaforseta. Balber sagði Kaveladze starfa hjá fyrirtæki Agalarov-feðganna og að hann hefði mætt á fundinn sem fulltrúi þeirra.

Balber sagði jafnframt að hann hefði greint frá nafni Kaveladze að beiðni fulltrúa Robert Mueller. Mueller var skipaður í maí síðastliðnum til að rannsaka meint tengsl starfsmanna forsetaframboðs Donalds Trump við Rússa. Beiðnin er fyrsta opinbera vísbendingin um að teymi Muellers hafi fundinn í Trump-turni til rannsóknar.

Donald Trump yngri mætti til fundar við rússneskan lögfræðing í júní á síðasta ári gegn því að hann fengi þar skaðlegar upplýsingar um Hillary Clinton, mótframbjóðanda föður síns. Hann birti sjálfur tölvupósta þess efnis á dögunum en sagði enn fremur ekkert marktækt hafa komið út úr fundinum.

Enn hafa ekki allir sem voru viðstaddir fundinn verið nafngreindir en í för með Trump yngri var mágur hans og ráðgjafi Bandaríkjaforseta, Jared Kushner.


Tengdar fréttir

Trump yngri kallaður fyrir þingnefnd

Formaður nefndarinnar, Chuck Grassley, sagði blaðamönnum í dag að Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trump eldri, yrði einnig kallaður fyrir nefndina.

Trump: Frábær stemning í Hvíta húsinu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að andrúmsloftið í Hvíta húsinu sé frábært, þrátt fyrir að yfir standi umfangsmikil rannsókn á meintum afskiptum Rússa af kosningabaráttu Trump í fyrra.

Trump segir soninn opinn og saklausan

Bandaríkjaforseti segir son sinn verða fyrir barðinu á nornaveiðum. Trump yngri sagði föður sínum ekki frá fundi sem er sagður hluti af stuðningi Rússlandsstjórnar við framboð föður hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×