Innlent

Brynjar Níelsson: „Í öllum betri bæjum eru nektarklúbbar, Björt“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Brynjar Níelsson segir nektarklúbba vera í öllum betri bæjum.
Brynjar Níelsson segir nektarklúbba vera í öllum betri bæjum. Vísir/Anton Brink
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lét ummæli um nektarstaði falla á Facebooksíðu Bjartar Ólafsdóttur, umhverfisráðherra.

Hann sagði það ekkert þýða að reyna að gera Reykjavík að ráðstefnuborg á meðan þar séu hvorki nektarklúbbar né spilavíti. „Í öllum betri bæjum eru nektarklúbbar,“ segir Brynjar.

Brynjar bar þá einnig upp spurningu til Bjartar: „Hvaða fordómar eru þetta gegn nektarklúbbum, Björt?“ Umhverfisráðherra svaraði um hæl og sagði þá vera heldur mikla.

Tilefni þessara orðaskipta er gagnrýni Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra í Fjallabyggð, á umhverfisráðherra um leyfisveitingar fyrir fiskeldi í sjó.

Hann sagði Björtu ekki vita hvað væri að gerast á landsbyggðinni. Björt Ólafsdóttir deildi frétt frá fréttastofu 365 með gagnrýni Birgis og svaraði henni. Í stöðuuppfærslunni segir að það sé hárrétt að þau deili ekki sömu sýn á það hvernig standa beri að leyfisveitingum. Hún tók sem dæmi að hún myndi ekki leyfa nektarklúbba í Reykjavík, Kópavogi eða uppsveitum Árnessýslu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×