Innlent

Áfrýjar dómi vegna meintra meiðyrða Sigmundar Ernis

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ummælin sem Spartakus vill dæmd dauð og ómerk snúa að fullyrðingum um meint fíkniefnaviðskipti hans í Suður-Ameríku.
Ummælin sem Spartakus vill dæmd dauð og ómerk snúa að fullyrðingum um meint fíkniefnaviðskipti hans í Suður-Ameríku.
Guðmundur Spartakus Ómarsson hefur áfrýjað sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Sigmundi Erni Rúnarssyni vegna fréttaflutnings af sér á vefmiðli Hringbrautar á síðasta ári. Hann fór fram á ómerkingu á níu ummælum sem birtust á Hringbraut.is og tvær milljónir króna í skaðabætur.

Ummælin snúa að fullyrðingum um meint fíkniefnaviðskipti Guðmundar, en Hringbraut greindi meðal annars frá því að Guðmundur Spartakus væri fíkniefnasmyglari í Suður-Ameríku sem sigldi þar „undir fölsku vegabréfsflaggi.“

Eiga rætur að rekja til erlendra fjölmiðla

Fréttirnar eiga flestar rætur sínar að rekja til erlendra fjölmiðlar þar sem fjallað er smyglhring í Suður-Ameríku, en þar er Guðmundur Spartakus sagður einn höfuðpaura.

Fjölmiðlar hérlendis greindu frá málinu og sendi lögmaður Guðmundar, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, í framhaldinu kröfubréf á blaðamenn sem fjölluðu um málið. Eftir því sem fréttastofa kemst næst voru kröfubréf send á DV, Morgunblaðið, Ríkisútvarpið, Stundina, Hringbraut og 365 miðla.

Vilhjálmur höfðaði svo meiðyrðamál á hendur Sigmundi Erni vegna fréttaflutnings á Hringbraut og á hendur þremur fréttamönnum og fréttastjóra RÚV, en Ríkisútvarpið er krafið um samtals tíu milljónir króna.

Þá höfðaði hann sömuleiðis mál á hendur Atla Má Gylfasyni, blaðamanni Stundarinnar, en munnlegur málflutningur fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Stundin hefur fjallað hvað mest um Guðmund Spartakus undanfarin misseri.

Sigmundur Ernir var sýknaður í apríl síðastliðnum, fyrst og fremst á grundvelli þess að umfjöllun Hringbrautar byggði einkum á því sem kom fram í öðrum miðlum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×