Viðskipti innlent

María Hrund ráðin markaðsstjóri Borgarleikhússins

Atli Ísleifsson skrifar
María Hrund Marinósdóttir.
María Hrund Marinósdóttir. Borgarleikhúsið
María Hrund Marinósdóttir hefur verið ráðin markaðsstjóri Borgarleikhússins. Hún tekur við starfinu af Jóni Þorgeiri Kristjánssyni og mun hefja störf þann 1. ágúst næstkomandi.

Í tilkynningu frá leikhúsinu segir að María Hrund hafi síðastliðið ár starfað sem markaðsstjóri Strætó þar sem hún innleiddi nýjar áherslur í markaðs- og kynningarmálum í almenningssamgöngum undir yfirskriftinni Besta leiðin.

„Áður en hún hóf störf hjá Strætó starfaði hún sem markaðsstjóri VÍS frá árinu 2007 – 2016. Árin 2005 til 2007 var hún viðskiptastjóri á Fíton auglýsingastofu en áður ráðgjafi hjá almannatengslafyrirtækinu KOM og markaðsstjóri hjá DV og Frjálsri fjölmiðlun.

María Hrund er stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur víðtæka reynslu á sviði markaðs- og kynningarmála. Þá hefur María Hrund gegnt ýmsum trúnaðarstörfum m.a. sem stjórnarmaður ÍMARK frá 2013 og sem formaður stjórnar frá árinu 2016.“

Haft er eftir Maríu Hrund að hún hafi sjaldan verið eins spennt að hefja störf á vinnustað. „Það eru forréttindi að markaðssetja upplifun sem maður trúir að skipti verulegu máli fyrir samfélagið okkar og það á sannarlega við um það sem Borgarleikhúsið býður Íslendingum upp á. Þess utan trúi ég að þetta sé skemmtilegur vinnustaður, stútfullur af fólki sem brennur fyrir það að skapa og það er eftirsóknarverð orka fyrir markaðsmanneskju til að starfa í,“ segir María Hrund.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×