Fótbolti

Segir Ronaldo vilja komast frá Real Madrid og Spáni vegna ásakana um skattsvik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ronaldo hefur skorað 600 mörk á ferlinum.
Ronaldo hefur skorað 600 mörk á ferlinum. vísir/getty
Stærsta íþróttadagblaðið í Portúgal, A Bola, fullyrðir í forsíðufrétt sinni í dag að Cristiano Ronaldo vilji komast frá Real Madrid og burt frá Spáni og það strax.

Hann er sagður vera búinn að láta Florentino Perez, forseta Real Madrid, vita af þessu en Ronaldo er brjálaður út í ásakanir í sinn garð um skattsvik og vill yfirgefa Spán.

Manchester United, Paris Saint-Germain og Monaco eru sögð öll vilja fá Ronaldo í sínar raðir og eru tilbúin til að „missa vitið þegar kemur að því að fá besta leikmann heims í sínar raðir“ eins og það er orðað í frétt A Bola. Er þar vitnað til mögulegs kaupverðs á þessum fyrrverandi dýrasta leikmanni heims.

Cristiano Ronaldo var á þriðjudaginn ákærður fyrir stórfelld skattsvik af saksóknarembættinu í Madrid en hann er sagður hafa skotið undan milljónum evra sem áttu að renna til skattsins.

Sjálfur segist Ronaldo ekkert hafa að fela og óttast ekki rannsókn. Hann neitar ásökunum skattayfirvalda en er svo reiður að hann vill komast frá Spáni, ef marka má frétt A Bola.

BBC hefur einnig greint frá málinu og heldur því sama fram. Frétt BBC má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×