Handbolti

Rússar ekki með á EM í fyrsta sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dmitrii Torgovanov mistókst að koma Rússum á EM.
Dmitrii Torgovanov mistókst að koma Rússum á EM. vísir/epa
Rússneska karlalandsliðið í handbolta verður ekki á meðal þátttökuliða á EM í Króatíu á næsta ári. Þetta var ljóst eftir 27-27 jafntefli Rússlands og Svartfjallalands í síðasta leik liðsins í undankeppni EM í dag.

Þetta eru stór tíðindi því Rússland hefur tekið þátt í öllum Evrópumótunum frá því keppnin var fyrst haldin árið 1994.

Rússar unnu aðeins einn leik af sex í sínum riðli í undankeppninni og enda í 3. sæti hans.

Lærisveinar Kristjáns Andréssonar í sænska landsliðinu voru þegar búnir að tryggja sér farseðilinn til Króatíu og með jafnteflinu í dag tryggðu Svartfellingar sér líka sæti á EM.

Rússar voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 16-11, en fóru illa að ráði sínu í seinni hálfleik og misstu forskotið niður.

Dmitrii Kiselev og Dmitry Kovalev skoruðu sex mörk hvor fyrir Rússa.

Vuko Borozan, nýkrýndur Evrópumeistari með Vardar frá Makedóníu, var markahæstur hjá Svartfjallalandi með sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×