Viðskipti innlent

Sigurður Magnús nýr forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður Magnús Garðarsson.
Sigurður Magnús Garðarsson. Háskóli Íslands
Sigurður Magnús Garðarsson, prófessor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, hefur verið ráðinn forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs skólans. Sigurður Magnús var valinn úr hópi sex umsækjenda um starfið. Hann tekur við starfinu af Hilmari Braga Janussyni þann 1. júlí næstkomandi.

Í tilkynningu frá skólanum segir að Sigurður Magnús hafi lokið BS-prófi í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og meistaragráðu í umhverfis- og byggingarverkfræði 1993 og hagnýttri stærðfræði 1995, hvort tveggja frá University of Washington í Bandaríkjunum. Doktorsprófi í umhverfisverkfræði hafi Sigurður Magnús svo lokið frá sama skóla árið 1997.

„Sigurður Magnús starfaði um árabil sem ráðgjafaverkfræðingur í verkefnum á sviðum vatna- og straumfræði, fyrst í Bandaríkjunum og svo hér heima, og var ráðinn dósent í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands árið 2003 og prófessor árið 2007.

Sigurður Magnús hefur í rannsóknum sínum lagt áherslu á rannsóknir tengdar endurnýjanlegri orku, þá sérstaklega vatnsaflsvirkjanir, vatna- og straumfræði ásamt rannsóknum á neysluvatnsgæðum.  Hann hefur birt fjölda vísindagreina og tekið þátt í fjölmörgum innlendum og erlendum rannsóknaverkefnum og meðal annars leitt rannsóknaverkefnið GEORG um alþjóðlegan rannsóknaklasa í jarðhita sem er styrkt af markáætlun Vísinda- og tækniráðs en að GEORG starfa 22 innlendir og erlendir aðilar.

Sigurður Magnús hefur gegnt ýmsum trúnaðar- og stjórnunarstörfum innan Háskóla Íslands. Hann var skorarformaður Umhverfis- og byggingarverkfræðiskorar á árunum 2007-2008, deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar 2008-2014 og hefur verið varaforseti deildarinnar frá þeim tíma. Sigurður Magnús hefur verið formaður Gæðanefndar háskólaráðs frá byrjun árs 2015. Á árunum 2015-2016 leiddi Sigurður Magnús ásamt aðstoðarrektor kennslu og þróunar stýrihóp sem vann að nýrri stefnu Háskóla Íslands fyrir árin 2016-2021 og hefur unnið að innleiðingu hennar með aðstoðarrektor frá samþykki stefnunnar,“ segir í tilkynningunni.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands er eitt af fimm fræðasviðum Háskóla Íslands. Það skiptist í sex deildir: iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, jarðvísindadeild, líf- og umhverfisvísindadeild, rafmagns- og tölvuverkfræðideild, raunvísindadeild og umhverfis- og byggingarverkfræðideild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×