Menning

Barnabækur hljóta að skipta miklu máli

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Annars er vandi að skrifa fræðandi efni fyrir börn, þar þarf að taka réttan pól sem höfðar til þeirra og kveikir áhuga,“ segir Margrét.
Annars er vandi að skrifa fræðandi efni fyrir börn, þar þarf að taka réttan pól sem höfðar til þeirra og kveikir áhuga,“ segir Margrét. Vísir/GVA
Ég er þakklát og glöð fyrir þennan góða stuðning. Það eru engir sérstakir styrkir veittar til barnabókagerðar sem við þyrftum þó að hafa fyrir okkar örmarkað.“ Þetta segir Margrét Tryggvadóttir, bókmenntafræðingur og rithöfundur, eftir að hafa tekið við 800 þúsund króna styrk frá Hagþenki til að skrifa bókina Maðurinn sem fór sínar eigin leiðir – Kjarval fyrir börn.

Skyldi hún vera byrjuð? „Já, býst þó ekki við að bókin komi út á þessu ári en vonandi því næsta. Í henni vil ég segja börnum frá Kjarval, þeim merka listamanni og verkum hans. Ég hugsa hana fyrir stálpaða krakka, kannski 8 til 12 ára, og mig langar að hafa hana í stóru broti, svipuðu og Íslandsbókin. Verkin hans Kjarvals eru mörg svo stór og það væri gaman að geta sýnt þau almennilega.“





Krakkar fá að kynnast meistara ?Kjarval í nýju bókinni.
Bókin verður sem sagt mikið myndskreytt að sögn Margrétar sem kveðst búin að fá annan styrk til að greiða fyrir höfundarrétt mynda og vinnslu á þeim. Sá er frá Barnavinafélaginu Sumargjöf. En hvernig kynntist hún Kjarval sjálf?

„Ég er svo heppin að foreldrar mínir, Elínbjört Jónsdóttir og Tryggvi Páll Friðriksson, hafa alltaf verið viðloðandi myndlist svo þegar ég var krakki var mér dröslað á allar sýningar og ég endaði á að læra að meta það. Ég held líka að myndlist og myndlesning verði æ þýðingarmeiri því öll heimsmynd okkar og framsetning á efni er svo myndræn.“

Margrét telur verk Kjarvals höfða vel til krakka, enda leynist þar margt og þau séu ævintýraheimur.





Hvítasunnudagur er eitt af litríkari verkum meistarans. Vísir/Stefán
„Kjarval var líka afkastamikill og leitandi, prófaði ýmsa stíla svo myndlistarferill hans er fjölbreyttur. Annars er vandi að skrifa fræðandi efni fyrir börn, þar þarf að taka réttan pól sem höfðar til þeirra og kveikir áhuga.



Kjarval var náttúrlega ólíkindatól og sérstakur í háttum og það væri hægt að skrifa bók um hann sem hálfgerða skrípapersónu en það langar mig ekki að gera. En hann bjó stundum við forvitnilegar aðstæður, var í tjaldi heilu sumrin og þá var útilegubúnaður og útivistarfatnaður mikið öðruvísi en í dag.“





Innt eftir hvað hún sé að gera núna annað en grúska í Kjarval svarar Margrét:

„Áður en ég fór á þing skrifaði ég og þýddi nokkrar barnabækur og sá um myndritstjórn slíkra bóka, ég er í raun komin aftur í það.

Barnabækur eru mitt hjartans mál. Ég tel að við séum á ögurstundu varðandi það hvort við höldum áfram að tala og skrifa íslensku eða ekki og barnabækur hljóta að skipta þar miklu máli. Við búum ekki til 25 ára lesendur, annaðhvort ánetjast fólk bókum í barnæsku eða ekki og útgáfa á barnabókum er eitt af því sem verður að vera í lagi hjá okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.