Menning

Nýjar og gamlar framtíðarhugmyndir

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Nokkrir sýningargripir. Tveir þeir næstu tengjast Nauthólsvíkinni, í flöskunni er fyrsta framleidda hitaveituvatnið frá Nesjavöllum og fjærst er módel frá 1951 af fyrirrennara Perlunnar í Öskjuhlíð.
Nokkrir sýningargripir. Tveir þeir næstu tengjast Nauthólsvíkinni, í flöskunni er fyrsta framleidda hitaveituvatnið frá Nesjavöllum og fjærst er módel frá 1951 af fyrirrennara Perlunnar í Öskjuhlíð. Vísir/Eyþór
Hér er horft til framtíðar með reynslu fortíðarinnar í farteskinu. Borgin er alltaf í mótun og það er áhugavert að skoða bæði nýjar og gamlar framtíðarhugmyndir,“ segir Anna María Bogadóttir arkitekt sem stjórnar uppsetningu sýningar á kjallara Norræna hússins. Sú nefnist Borgarveran og verður opnuð klukkan fimm á morgun, miðvikudag.

Á sýningunni eru gripir, módel, skissur, tæki og teikningar sem tengjast beislun vatns og orku og þeim ýmsu kerfum sem tilheyra borgarskipulagi, bæði ofan jarðar og neðan. Framsýnar hugmyndir frá upphafi 20. aldar, sem margar hverjar komu til framkvæmda í einhverri mynd.





Anna María Bogadóttir sýningarstjóri í hálfkláruðu Airbnb-herbergi.
En sjónum er ekki aðeins beint að manngerðum innviðum borgarinnar heldur líka náttúrulegum enda fléttast þeir saman.

„Hér erum við með gamalt módel af byggingu milli hitaveitutankanna í Öskjuhlíð sem Eiríkur Einarsson og Sigurður Guðmundsson gerðu 1951. Þar er veitingastaður í miðjunni. En Perlan sem við þekkjum í dag reis fjörutíu árum seinna, Ingimundur Sveinsson er arkitekt að henni,“ útskýrir Anna María.

 

 

Samtímahönnuðir og myndlistarmenn leggja sitt af mörkum. Meðal höfunda verka á sýningunni eru Arkibúllan, Béka og Lémoine, Einar Þorsteinn Ásgeirsson, Hildur Bjarnadóttir, Hreinn Friðfinnsson, Jan Gehl, Krads, Sigrún Thorlacius, Úti og inni arkitektar og Ragnar Kjartansson. Spurð hvernig verk þess síðarnefnda sé svarar Anna María.

„Við erum með skissu af verki eftir Ragnar, það er stórt umhverfislistaverk sem hann vann fyrir flugvöllinn í Bergen og verður væntanlega sett þar upp á næsta ári. Það vísar í ímynd borga nútímans og ímynd borgara nútímans,“ útskýrir Anna María. „Reykjavík er þungamiðja sýningarinnar en sýningin fjallar samt almennt um hvernig borgir verða til, hvernig við mannfólkið mótum borgirnar og borgirnar móta okkur. Það er víðfeðmt efni og vonandi spennandi fyrir fólk að skoða.“

Sýningin Borgarveran stendur fram á haust. Samhliða henni stendur Norræna húsið fyrir fjölbreyttri viðburðadagskrá um arkitektúr og skipulagsmál. Sýningin og dagskráin byggja á samstarfi við fjölmarga, meðal annars Listaháskóla Íslands, Nordic Built Cities, Reykjavíkurborg og Skipulagsstofnun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.