Enski boltinn

Sló í gegn með Mónakó í vetur og skrifar undir samning við Man. City í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bernardo Silva fagnar sigri Mónakó á Manchester City í vetur.
Bernardo Silva fagnar sigri Mónakó á Manchester City í vetur. Vísir/Getty
Bernardo Silva, miðjumaður Mónakó, mun ganga frá samningi við enska úrvalsdeildarliðið Manchester City í dag, samvkæmt heimildum Sky Sports.

Bernardo Silva, sem er 22 ára gamall og spilaði mjög vel með spútnikliðið Mónakó á tímabilinu, mun gera fimm ára samning við Manchester City.

Kaupverðið er talið vera í kringum 43 milljónir punda eða um 5,5 milljarða íslenskra króna.

Manchester United hefur einnig haft mikinn á huga á leikmanninum en nágrannarnir í City voru fljótari til. Nú þegar United missti af þessum framtíðarmanni þá er líklegt að félagið leggi ofurkapp á að ná Antoine Griezmann.

Bernardo Silva hefur verið líkt við David Silva hjá Manchester City en Bernardo hefur þegar spilað tólf landsleiki fyrir Portúgal. Hann hefur verið kallaður „Litli Messi“ í heimalandi sínu.

Bernardo hjálpaði Mónakó-liðinu að vinna franska meistaratitilinn á þessu tímabili þar sem hann var með 8 mörk og 11 stoðsendingar í 36 leikjum.

Mónakó-liðið gerði gott betur en það því það komst alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar þar sem liðið féll út á móti Juventus.

Stuðningsmenn City sáu Bernardo Silva hjálpa Mónakó að slá Manchester City út úr Meistaradeildinni en Mónakó-liðið skoraði sex mörk hjá City í tveimur leikjum liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×