Innlent

Félagsleg leiga dýrust í Garðabæ

Snærós Sindradóttir skrifar
Garðabær rukkar hærra verð fyrir leiguíbúðir sínar en Reykjavík.
Garðabær rukkar hærra verð fyrir leiguíbúðir sínar en Reykjavík. Fréttablaðið/GVA
Dýrustu félagslegu íbúðir landsins má finna í Garðabæ. Meðalleigugjald á hvern fermetra en hæst í sveitarfélaginu í öllum flokkum nema fjögurra herbergja íbúðum en í tveggja herbergja íbúðum er meðal fermetraverðið 170 krónum hærra en í Reykjavík.

Þetta kemur fram í nýútkominni könnun á leiguíbúðum í eigu sveitarfélaga sem unnin er fyrir velferðarráðuneytið. Fram kemur í könnuninni að Garðabær er með fæstar leiguíbúðir miðað við höfðatölu á öllu höfuðborgarsvæðinu, eða um 35 talsins. Samkvæmt upplýsingaveitu sveitarfélaga eru íbúar Garðabæjar 15.230 talsins.

Af 50 fjölmennustu sveitarfélögum landsins eru það aðeins Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Langanesbyggð, Hörgársveit, Bolungarvíkurkaupstaður, Hvalfjarðarsveit og Vogar sem hafa færri félagslegar íbúðir miðað við höfðatölu.

Meðalleiguverð hjá Garðabæ eru 1.889 krónur í stúdíóíbúðum, 1.816 krónur í tveggja herbergja íbúðum, 1.656 krónur í þriggja herbergja íbúðum og 745 krónur í fjögurra herbergja íbúðum. Samkvæmt könnuninni hyggst sveitarfélagið fjölga félagslegum íbúðum í sveitarfélaginu um sjö á þessu ári og því næsta. Bænum bárust 39 umsóknir um félagslegt húsnæði árið 2016 en allar umsóknirnar voru samþykktar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×