Skoðun

Umboðssvik

Kári Stefánsson skrifar
Á öldunum áður í Kína var litið svo á að keisarar stjórnuðu í umboði guðanna. Þegar fólkið í landinu fékk það á tilfinninguna að keisarinn hefði glatað umboðinu gerði það uppreisn. Ein slík átti sér stað í kringum 1850 og létu fimmtíu milljón manns lífið í henni.

Alþingi stjórnar Íslandi í umboði fólksins í landinu, sem er endurnýjað á fjögurra ára fresti. Alþingi framselur svo hluta af þessu valdi til ríkisstjórnar sem það getur þó tekið til baka án nokkurs fyrirvara. Ísland er lýðveldi og í lýðveldinu hvílir valdið hjá fólkinu, lýðnum. Á Íslandi veitir fólkið Alþingi heimild til þess að stjórna í sínu umboði. Þetta umboð er mismunandi skilyrt og fer það eftir því hvað var sagt í kosningabaráttunni bæði af kjósendum og frambjóðendum og hverju var lofað af þeim síðarnefndu. Í aðdraganda kosninga á hausti tjáði þjóðin skýrt þá skoðun sína að heilbrigðiskerfi landsins væri laskað og krafðist þess af Alþingi að það yrði endurreist á myndarlegan máta. Frambjóðendur allra flokka hétu því að verða við kröfunni.

Nú er ríkisstjórnin sem Alþingi bauð þjóðinni upp á eftir kosningar búin að leggja fram fimm ára áætlun ríkisfjármála sem sýnir fram á að hún ætli ekki að fara að kröfu þjóðarinnar um myndarlega endurreisn heilbrigðiskerfisins og þar með svíkja loforð sem frambjóðendur allra flokka veittu fyrir kosningar. Ef Alþingi samþykkir áætlunina væri um að ræða umboðssvik af þess hálfu.

Það er nokkuð ljóst að kjósendur, fólkið í landinu, veittu þeim umboð til þess að stjórna sem þeir höfðu ástæðu til þess að ætla að sæju til þess að heilbrigðiskerfið yrði endurreist. Umboð þeirra til þess að stjórna var skilyrt því. Þess vegna má leiða að því rök að ef Alþingi samþykkir áætlunina hafi það glatað umboðinu. Ef svo fer væri það í samræmi við hugmyndir okkar um lýðræði að rjúfa þing og efna til kosninga. Ef Alþingi gerir það ekki af sjálfsdáðum finnur þjóðin leið til þess að sannfæra kjörna fulltrúa sína um að það gerist víðar stórtíðindi en í Kína.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×