Bíó og sjónvarp

Bjóst við að verða jarðaður á Cannes en var valinn besti leikarinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Mér fannst í raun frábært að fá að vita hvernig það er að vera óvinsæll. Það var það sem ég átti von á áður en ég kom hingað,“ sagði Joaquin Phoenix eftir að hann var valinn besti leikarinn á Cannes.
Mér fannst í raun frábært að fá að vita hvernig það er að vera óvinsæll. Það var það sem ég átti von á áður en ég kom hingað,“ sagði Joaquin Phoenix eftir að hann var valinn besti leikarinn á Cannes. Vísir/EPA
Bandaríski leikarinn Joaquin Phoenix átti alls ekki von á því að verða valinn besti leikarinn á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi og virtist ekki alveg skilja að honum hefði hlotnast sá heiður á verðlaunaathöfninni í gær.

Phoenix talar ekki frönsku og vissi því ekki hvað var í gangi þegar niðurstaða dómnefndarinnar var kynnt. Hann heyrði þó nafn sitt inni á milli frönskunnar og í sömu andrá var myndavélinni beint að honum og hann klappaður upp á svið.

Hann var þó ekki enn viss og spurði kærustu sína, Rooney Mara, hvort hann þyrfti að fara upp á svið?

Phoenix fékk verðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni You Were Never Really Here. Þar leikur hann fyrrverandi hermann sem tekur að sér ýmis verkefni sem aðrir fást ekki til að gera. Í myndinni er hann ráðinn í það verkefni að bjarga ungum stúlkum úr kynlífsánauð, og leggur í það verk með hamar einan að vopni.

„Ég bjóst alls ekki við þessu, eins og þið sjáið á skónum mínum,“ sagði Phoenix sem skartaði Converse-strigaskóm við smóking. „Ég geng ekki í leðri og skórnir mínir voru sendir heim með flugvélinni.“

Á blaðamannafundi eftir verðlaunaathöfnina sagði Phoenix að hann hann hefði ekki búist við að einhverjum myndi líka við myndina.

„Áður en ég kom hingað sagði ég við kærustuna mína að þetta yrði góð upplifun því ég er yrði jarðaður og það er afar auðmýkjandi. Mér fannst í raun frábært að fá að vita hvernig það er að vera óvinsæll. Það var það sem ég átti von á áður en ég kom hingað.“

Hann var spurður af hverju hann fór ekki beint upp á svið þegar niðurstaðan var ljós. Hann sagðist hreint ekki hafa verið viss um hvað var að gerast og vildi ekki hætta á að fara upp á svið og vera síðan rekinn niður aftur.


Tengdar fréttir

Þetta eru kvikmyndirnar sem keppa um Gullpálmann í Cannes

Kvikmyndahátíðin í Cannes stendur nú sem hæst og verður hinn eftirsótti Gullpálmi afhentur við hátíðlega athöfn á sunnudaginn. Alls keppa 19 kvikmyndir um pálmann og er kvikmyndin Happy End talin líklegust til að vinna ef marka má veðbankana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×