Körfubolti

Viðar heldur kyrru fyrir í Skagafirðinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viðar er einn besti varnarmaður landsins.
Viðar er einn besti varnarmaður landsins. vísir/stefán
Viðar Ágústsson hefur framlengt samning sinn við Tindastól og mun því leika með liðinu í Domino's deild karla á næsta tímabili.

Samkvæmt heimildum Vísis báru nokkur lið víurnar í Viðar en hann ákvað að halda kyrru fyrir hjá Tindastóli.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Viðar verið í stóru hlutverki hjá Stólunum undanfarin ár. Hann skoraði 8,7 stig að meðaltali í leik í deildakeppninni í vetur. Viðar er auk þess einn besti varnarmaður Domino's deildarinnar.

Viðar er einnig lykilmaður í U-20 ára landsliði Íslands sem tekur þátt í lokakeppni EM í Grikklandi í sumar.

Stólarnir ætla sér stóra hluti á næsta tímabili en þeir eru búnir að semja við Sigtrygg Arnar Björnsson og landsliðsmanninn Axel Kárason um að leika með liðinu. Þá framlengdi leikstjórnandinn Pétur Rúnar Birgisson samning sinn við Tindastól á dögunum.

Tindastóll endaði í 3. sæti Domino's deildarinnar í vetur og féll úr leik fyrir Keflavík í 8-liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×