Körfubolti

Keflvíkingar halda öllum sínum íslensku leikmönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Már Traustason í leik á móti Íslandsmeisturum KR.
Magnús Már Traustason í leik á móti Íslandsmeisturum KR. Vísir/Ernir
Karlalið Keflavíkur í körfubolta átti endurkomu í hóp bestu liða landsins á nýloknu tímabili í Domino´s deildinni og nú er ljóst að Keflavíkurliðið tekur ekki miklum breytingum frá því í fyrra.

Magnús Már Traustason hefur nefnilega framlengt samning sínum við Keflavík og verður hann áfram í herbúðum liðsins næstu tvö árin en þetta kemur fram í frétt á heimasíðu félagsins.

Í fréttinni á heimasíðu Keflavíkur er um leið staðfest að allir íslenskir leikmenn Keflavíkurliðsins frá síðasta tímabili verða áfram með liðinu næsta vetur.

Þetta eru góðar fréttir fyrir Keflvíkinga sem ættu því að geta byggt ofan á spilamennsku sína í vetur.

Magnús Már Traustason er tvítugur framherji sem var með  12,7 stig og 3,8 fráköst að meðaltali á öllu Íslandsmótinu en í úrslitakeppninni var hann með 14,6 stig í leik þrátt fyrir að skora ekki stig í lokaleiknum.

Keflvíkingar skiptu í fimmta gír eftir að Friðrik Ingi Rúnarsson tók við liðinu og lykilatriði var að Friðriki Inga tókst að fá miklu meira út úr landsliðsbakverðinum Herði Axel Vilhjálmssyni.

Hörður Axel var samt ekki eini íslenski leikmaður liðsins sem spilaði betur eftir að Friðrik Ingi tók við í febrúar.

Næst á dagskrá er að finna erlendan leikmann en besti Bandaríkjamaðurinn í deildinni var án efa  Amin Khalil Stevens hjá Keflavík sem var með 28,6 stig og 16,0 fráköst að meðaltali á Íslandsmótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×