Handbolti

Stephen Nielsen kallaður inn í landsliðshópinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stephen hefur leikið með ÍBV undanfarin tvö tímabil.
Stephen hefur leikið með ÍBV undanfarin tvö tímabil. vísir/vilhelm
Stephen Nielsen, markvörður ÍBV, hefur verið kallaður inn í íslenska landsliðshópinn í handbolta fyrir leikina gegn Makedóníu í undankeppni EM 2018.

Aron Rafn Eðvarðsson hefur átt við meiðsli að stríða og óvíst er með þátttöku hans í leikjunum gegn Makedóníu.

Stephen kemur til móts við íslenska liðið í Þýskalandi í dag og æfir með því seinni partinn.

Fyrri leikurinn gegn Makedóníu er í Skopje á fimmtudaginn og á sunnudaginn mætast liðin svo í Laugardalshöllinni.

Stephen er danskur en fékk íslenskan ríkisborgararétt í desember 2015. Hann lék sinn fyrsta landsleik fyrir Ísland gegn Portúgal í janúar á síðasta ári.

Stephen, sem er 32 ára, kom upphaflega hingað til lands 2013 þegar hann gekk í raðir Fram. Hann færði sig svo um set til Vals áður en hann samdi við ÍBV 2015.

Stephen var lánaður til franska úrvalsdeildarliðsins Aix fyrri hluta tímabilsins í ár en sneri aftur til ÍBV eftir áramót.


Tengdar fréttir

Geir: Frábært að fá Aron aftur í liðið

Geir Sveinsson landsliðsþjálfari gerði aðeins eina breytingu á leikmannahópi sínum frá HM og hópnum sem mætir Makedóníu í undankeppni EM í upphafi næsta mánaðar.

Reiknar með breyttum leikstíl Makedóníu

Geir Sveinsson landsliðsþjálfari býst við því að Makedónía muni ekki spila sama handbolta í næsta mánuði og það gerði á HM í janúar. Nýr þjálfari hefur tekið við liðinu og íslenska liðið verður að ná hagstæðum úrslitum.

Aron snýr aftur í landsliðið

Nú upp úr hádegi tilkynnti Geir Sveinsson landsliðsþjálfari leikmannahóp sinn fyrir komandi leiki í undankeppni EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×