Erlent

Segir ESB þurfa að breytast til að forðast „Frexit“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Emmanuel Macron
Emmanuel Macron Vísir/Getty
Franski forsetaframbjóðandinn Emmanuel Macron segir að Evrópusambandið verði að breytast ef forðast eigi útgöngu Frakklands úr sambandinu. Þetta segir hann í samtali við BBC.

Ummæli Macron koma þegar vika er í seinni umferð forsetakosninganna í Frakklandi. Þar mun Macron mæta Marine Le Pen sem hefur talað fyrir því að Frakkland eigi að yfirgefa Evrópusambandið, líkt og Bretar. Macron er með um 20 prósentustiga forskot á Le Pen samkvæmt skoðanakönnunum þegar vika er til stefnu.

Ég er hlynntur Evrópusamvinnu, ég hef alla þessa baráttu varið evrópsk gildi vegna þess að ég tel þau vera gríðarlega mikilvæg fyrir frönsku þjóðina og okkar stað í alþjóðasamfélagi,“ sagði Macron.

„En á sama tíma þurfum við að horfast í augu við aðstæðurnar, hlusta á fólkið okkar sem er reitt og óþolinmótt og vanhæfi ESB gengur ekki lengur.“

Hann segir að það væru svik ef hann leyfði Evrópusambandinu að halda áfram á þeirri vegferð sem það er á.

„Svo ég lít á það sem fyrirskipun að kalla eftir breytingum. Ef ekki fáum við Frexit eða Þjóðarflokkinn aftur,“ sagði Macron og nefndi þar flokk andstæðings síns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×