Erlent

Hamas hættir að kalla eftir gereyðingu Ísrael

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Samtökin Hamas eru hætt að kalla eftir gereyðingu Ísraels. Þetta kemur fram í nýju stefnuskjali frá samtökunum þar sem því er lýst yfir að samtökin ætli að slíta sig frá Bræðralagi múslima. Tilveruréttur Ísrael verður þó ekki viðurkenndur af Hamas-liðum og samtökin halda markmiði sínu að á endanum „frelsa“ allt svæðið.

Í skjalinu segir einnig að Hamas berjist ekki gegn íbúum Ísraels vegna trúar þeirra, heldur vegna hernáms þeirra.

Yfirvöld í Ísrael gefa þó lítið fyrir vægari tón Hamas-liða í þeirra garð. Talsmaður Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir samtökin reyna að blekkja heimsbyggðina.

„Þeir grafa hryðjuverka-göng og hafa skotið þúsundum flugskeyta að ísraelskum borgurum. Það eru hin raunverulegu Hamas-samtök, segir David Keyes í samtali við Reuters.

Samtökin voru stofnuð árið 1987 og hafa þrisvar sinnum barist gegn herafla Ísrael frá árinu 2007. Hamas hefur stjórnað Gaza-svæðinu frá því ári.

Samkvæmt áðurnefndur skjölum styðja Hamas-samtökin nú stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu eftir landamærunum eins og þau voru árið 1967. Það er fyrir sex daga stríðið svokallaða þar sem Ísrael hertók Gaza, Vesturbakkann og austurhluta Jerúsalem. Það ríki er einnig markmið Fatah hreyfingarinnar sem leidd eru af Mahmoud Abbas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×