Erlent

Le Pen sökuð um að stela bútum úr gamalli ræðu Fillon

Marine Le Pen er forsetaframbjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar.
Marine Le Pen er forsetaframbjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar. Vísir/AFP
Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, hefur verið sökuð um ritstuld en í ræðu sem hún flutti í gærkvöldi voru bútar sem eru nánast orðrétt ummæli sem Repúblikaninn Francois Fillon, sem einnig var í framboði í fyrri umferð kosninganna, lét falla þann 15. apríl síðastliðinn.

Le Pen mætir Emmanuel Macron í síðari umferð kosninganna næsta sunnudag.

Talsmaður Le Pen þvertekur fyrir að um ritstuld hafi verið að ræða og segir að hún hafi aðeins verið að vísa í orð Fillon, sem sýni að Le Pen sé hafin yfir flokkadrætti.

Le Pen flutti ræðuna á kosningafundi í Villepinte, norður af höfuðborginni París, en það voru umsjónarmenn Ridicule TV á YouTube sem bentu fyrst á líkindin.

Ridicule TV var sett á laggirnar af stuðningsmönnum Fillon í aðdraganda fyrri umferðar kosninganna.


Tengdar fréttir

Macron ýjar að Frexit

Líklegur næsti forseti Frakklands segir ESB þurfa að breytast, eigi Frakkar ekki að ganga úr sambandinu. Andstæðingur hans lofar þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu. Kosið er um nýjan forseta þann 7. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×