Innlent

Skoða alvarlega að flýja slæmt ástand í leikskólamálum

Sveinn Arnarsson skrifar
Foreldrar á Akureyri eru hræddir um mikið tekjutap næsta haust þar sem börn komast ekki inn á leikskóla.
Foreldrar á Akureyri eru hræddir um mikið tekjutap næsta haust þar sem börn komast ekki inn á leikskóla. Fréttablaðið/Pjetur
Foreldrar barna á Akureyri sem fædd eru árið 2016 íhuga margir að flytja í nágrannabyggðir til að fá pláss í leikskóla fyrir börn sín. Aðeins örfá börn komast í leikskóla næsta haust á Akureyri. Oddvitar minnihlutaflokka í bæjarstjórn segjast undrast andvaraleysi meirihlutans.

„Þetta er grafalvarleg staða sem komin er upp. Kerfið er einfaldlega ekki að virka og metnaður virðist ekki vera fyrir hendi til að breyta kerfinu,“ segir Sóley Björk Stefánsdóttir, oddviti VG í bæjarstjórn. 

Sóley Björk Stefánsdóttir, Oddviti VG á Akureyri.
„Bak við tölurnar eru fjölskyldur sem munu eiga í fjárhagslegum erfiðleikum næsta vetur. Þessu verður líklega ekki breytt fyrr en fleiri konur komast í oddvitastöður í bæjarstjórninni hér á Akureyri.“

Akureyri hefur frá 2008 haft þá stefnu að bjóða börnum inngöngu í leikskóla við átján mánaða aldur.

Einsýnt er að sum börn komist ekki inn fyrr en langt komin á þriðja aldursár.

Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi fræðslustjóri Akureyrar, segir málið alvarlegt.

„Ég hef óskað eftir því að fá gögn um stöðuna. Það er á hreinu að það verður að bregðast við þessu og sjá hvaða leiðir eru mögulegar.

Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri
Samkvæmt heimildum fréttastofu eru foreldrar farnir að hugsa sér til hreyfings úr sveitarfélaginu. Hugrún Sigmundsdóttir, leikskólastjóri í Eyjafjarðarsveit sunnan Akureyrar, staðfestir við Fréttablaðið að hún hafi fengið símtöl frá áhyggjufullum foreldrum á Akureyri til að spyrjast fyrir um leikskólapláss.

Dagbjört Pálsdóttir, formaður fræðsluráðs, segir lítið hægt að gera í málinu en ný skólastefna sé í burðarliðnum. Ekki sé hægt að tryggja átján mánaða börnum inngöngu í leikskóla á þessu hausti. „Þetta er stór árgangur sem er núna og við vissum það fyrir. Strax á næsta ári verður ástandið betra. Það er voðalega lítið sem við getum gert akkúrat núna meira en við erum að gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×