Körfubolti

Arnar Björnsson fer úr Borgarnesi í Skagafjörðinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Björnsson er mættur í Skagafjörðinn.
Arnar Björnsson er mættur í Skagafjörðinn. vísir/anton brink
Tindastóll heldur áfram að bæta við sig öflugum leikmönnum fyrir átökin í Domino´s-deild karla í körfubolta á næstu leiktíð.

Feykir.is greinir frá því að Stólarnir eru búnir að semja til eins árs við Arnar Björnsson sem kemur í Skagafjörðinn frá Skallagrími í Borgarnesi þar sem hann fór á kostum í vetur.

Þessi 24 ára gamli leikstjórnandi skoraði 18 stig að meðaltali í leik í vetur, tók 5,8 fráköst og gaf 5,3 stoðsendingar að meðaltali í leik en hann var fimmti stoðsendingahæstur í deildinni.

Hann heillaði körfuboltaáhugamenn sérstaklega með ótrúlegri frammistöðu sinni í DHL-höllinni á móti meisturum KR þar sem hann skoraði 37 stig. Þrátt fyrir framlag Arnars í vetur féll Skallagrímur í næstsíðustu umferð deildarinnar.

Tindastóll hefur markvisst gert harða atlögu að Íslandsmeistaratitlinum undanfarin þrjú ár og verið sterkt á félagaskiptamarkaðnum. Skagfirðingar eru svo sannarlega ekki hættir að reyna við þann stóra en fyrr því fyrr í mánuðinum gengu þeir frá tveggja ára samningi við landsliðsmanninn Axel Kárason sem er uppalinn hjá Tindastóli.

Stólarnir áttu séns á deildarmeistaratitlinum í ár en enduðu í þriðja sæti og létu svo Keflvíkinga sem höfnuðu í sjötta sæti deildarinar henda sér í sumarfrí í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×