Innlent

Olsen í áframhaldandi gæsluvarðhald

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Thomas Møller Olsen var ekki viðstaddur fyrirtökuna í dag. Hann hefur ávallt hulið andlit sitt þegar hann hefur mætt fyrir dóm.
Thomas Møller Olsen var ekki viðstaddur fyrirtökuna í dag. Hann hefur ávallt hulið andlit sitt þegar hann hefur mætt fyrir dóm. vísir/vilhelm
Thomas Møller Olsen, sem grunaður er um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana í janúar síðastliðnum, var í Héraðsdómi Reykjaness í dag úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi í tæpar fjórtán vikur.  Varðhaldið hefði að óbreyttu runnið út á fimmtudaginn kemur.

Fyrirtaka verður í máli Olsen núna klukkan 15 en þá má gera ráð fyrir gagnaframlagningu og að dagsetning á aðalmeðferð verði ákveðin.

Ákæra var gefin út á hendur Olsen í lok síðasta mánaðar fyrir manndráp annars vegar og fíkniefnalagabrot hins vegar. Hann hefur neitað sök í báðum ákæruliðum. 

Olsen er sakaður um að hafa slegið Birnu ítrekað í andlit og höfuð, tekið hana kvertataki og hert kröftuglega að hálsi hennar í rauðri Kia Rio bifreið hinn 14. janúar síðastliðinn. Þá er hann sagður hafa varpað henni í sjó eða vatn í framhaldinu með þeim afleiðingum að hún drukknaði.

Uppfært klukkan 15:40:

Verjandi Olsen fór fram á frest til að fara yfir framlögð gögn og var frestur ákveðinn tvær vikur. Þá verður mögulega kallaður til dómkvaddur matsmaður. Næsta fyrirtaka í málinu verður þann 9. maí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×