Enski boltinn

City með fleiri menn en United í úrvalsliði Manchester

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Pogba er eini rauði á miðjunni.
Paul Pogba er eini rauði á miðjunni. vísir/getty
Sky Sports hefur sett saman úrvalslið Manchester fyrir borgarslaginn á morgun þegar Manchester City tekur á móti Manchester United í mikilvægum leik í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Mikið er undir hjá báðum liðum en allt stefnir í fyrsta titlalausa tímabilið hjá Pep Guardiola síðan hann fór út í þjálfun á meðan United er búið að vinna deildabikarinn og er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar.

Manchester City er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 64 stig en Manchester United er í fimmta sæti með 63 stig. United getur því hoppað upp fyrir samborgara sína með sigri annað kvöld og verið með Meistaradeildarörlögin í eigin höndum.

Þegar leikmannahópar liðanna eru settir saman komast í byrjunarliðið sex leikmenn Manchester City og fimm leikmenn Manchester United, að mati Sky Sports.

David De Gea er í markinu og vörnin skiptist jafnt. Antonio Valencia er í hægri bakverði og Aleksandar Kolarov í þeim vinstri. Nicolas Otamendi og Daley Blind eru miðverðir.

Paul Pogba er eini leikmaður United sem kemst á miðjuna í leikkerfinu 4-4-2. Raheem Sterling og Kevin De Bruyne eru á vængjunum og David Silva við hlið Pogba á miðjunni. Zlatan og Sergio Agüero eru svo í framlínunni.

mynd/sky sports



Fleiri fréttir

Sjá meira


×