Skoðun

Fiskeldi í heiminum er í sókn

Einar K. Guðfinnsson skrifar
Lífsseig er hún sú flökkusaga, en jafn kolröng, að fiskeldi sé á undanhaldi í heiminum og ekki síst í okkar heimshluta. Oft hefur mátt lesa þetta hér í Fréttablaðinu og síðast nú alveg nýverið. Þó er þessu alveg öfugt farið. Fiskeldi er almennt að aukast í veröldinni. Í þeim löndum á okkar slóðum sem geta stundað fiskeldi hefur það vaxið og áform stjórnvaldanna standa til þess auka það enn frekar.

Allt er það að vonum. Það er alveg ljóst - og raunar óumdeilt - að vaxandi fæðuþörf mannkyns verður ekki mætt nema með auknu fiskeldi. Bágt ástand margra villtra fiskistofna gerir það að verkum að því fer fjarri að fiskveiðar geti núna mætt vaxandi fæðuþörf; og alls ekki í framtíðinni. Jafnvel þó betur væri staðið að málum við fiskveiðar í heiminum hrykki það ekki til. Fiskeldi er því svarið við þeirri staðreynd.

Fiskeldi er margbreytilegt. Skel og krabbadýr, fjölbreytileg flóra fiskitegunda og áfram má telja. Mismunandi náttúrulegar aðstæður í heiminum ráða því. Sumt fer fram á landi en annað í sjó. Aðstæður í hverju landi og hverjum heimshluta stýra þeirri þróun.

Þess vegna er fiskeldi í heiminum í stöðugri sókn og stöðugum vexti. Meira en helmingi allrar fisk og sjávardýraneyslu í heiminum er mætt með fiskeldi. Eldisfiskur í heiminum er framleiddur í meira mæli en nautakjöt. Og ef laxeldi er skoðað sérstaklega þá blasa við athyglisverðar tölur. Laxeldi í heiminum nemur um 2,1 milljón tonna, sem svarar til um 15 milljarða máltíða á ári. Framleiðsluverðmætið er um 10 milljarðar dollara, 1.1100 milljörðum íslenskra króna.

Það er því ekki að undra að stofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar hvetji til aukins fiskeldis og sama á við um stjórnvöld um víða veröld, svo sem eins og í löndunum í kring um okkur. „Fiskeldi skiptir sköpum til þess að mæta fæðuþörf heimsins næstu 50 árin“, sagði til að mynda Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Það er ástæða fyrir okkur Íslendinga sem og aðra að leggja við hlustir og svara þessu ákalli.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×