Fótbolti

Er Real Madrid tilbúið að selja bæði Bale og Ronaldo?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Gareth Bale.
Cristiano Ronaldo og Gareth Bale. Vísir/Getty
Spænska blaðið Don Balon slær því upp í morgun að bæði forseti Real Madrid, Florentino Perez og knattspyrnustjórinn, Zinedine Zidane, séu það óánægðir með frammistöðu tveggja stærstu stjarna liðsins að þeir séu til sölu í sumar.

Real Madrid keypti á sínum tíma þá Cristiano Ronaldo og Gareth Bale fyrir metfé frá ensku liðunum Manchester United (Ronaldo) og Tottenham (Bale). Nú eru þeir ekki lengur ómissandi í huga þeirra sem ráða öllu á Santiago Bernabeu ef marka má fréttina hjá Don Balon.

Spænskir fjölmiðlar höfðu áður fjallað um þær áhyggjur sem Florentino Perez hefur af frammistöðu Cristiano Ronaldo. Cristiano Ronaldo er orðinn 32 ára og því farið að styttast í lok ferilsins. Hann er samt ríkjandi besti knattspyrnumaður heims.  

Cristiano Ronaldo og Gareth Bale áttu ekki góðan leik fyrir framan markið í jafntefli á móti Atletico Madrid á Santiago Bernabeu um helgina. Mörgum finnst þeir ekki leggja sig nógu mikið fram og samkvæmt heimildum Don Balon er Zinedine Zidane einn af þeim.

Real Madrid er að reyna að vinna sinn fyrsta meistaratitil á Spáni síðan 2012 og þetta jafntefli hefði getað verið dýrkeypt. Barcelona tapaði hinsvegar sínum leik og því er Real Madrid bæði með þriggja stiga forskot á toppnum og á líka leik inni á Börsunga.

Zinedine Zidane heldur áfram að spila þeim  Cristiano Ronaldo, Gareth Bale og Karim Benzema í leikjunum en spænskir fjölmiðlamenn vilja margir sjá meira af þeim Alvaro Morata (í stað Benzema) og Lucas Vazquez (í stað Bale).

Það að Real Madrid sé tilbúið að selja þá Cristiano Ronaldo og Gareth Bale ætti að hrista upp í félagsskiptamarkaðnum á Englandi en mörg ensk félög hafa örugglega mikinn áhuga á því að fá þessa öflugu leikmann aftur í ensku úrvalsdeildina.  Real Madrid selur kannski ekki báða en það þarf ekki að koma á óvart þótt að annar þeirra fari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×