Fótbolti

Tony Adams nýr stjóri Sverris Inga og félaga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Adams varð fjórum sinnum enskur meistari með Arsenal.
Adams varð fjórum sinnum enskur meistari með Arsenal. vísir/getty
Sverrir Ingi Ingason er kominn með nýjan knattspyrnustjóra hjá Granada.

Sá er flestum áhugamönnum um fótbolta kunnur; Tony Adams, fyrrverandi fyrirliði Arsenal og enska landsliðsins.

Eftir tapið fyrir Valencia í gær fannst stjórn Granada nóg komið og rak stjórann Lucas Alcaraz. Sverrir Ingi vill eflaust gleyma þeim leik sem fyrst en hann var tekinn út af eftir rúman hálftíma. Þá var staðan 0-2 fyrir Valencia.

Adams mun stýra Granada út tímabilið. Hann var nýtekinn við starfi íþróttastjóra hjá félaginu.

Adams fær það erfiða verkefni að bjarga Granada frá falli en liðið er í nítjánda og næstneðsta sæti spænsku úrvalsdeildarinnar, sjö stigum frá öruggu sæti þegar sjö umferðum er ólokið.

Adams lék allan sinn feril með Arsenal, frá 1983 til 2002. Hann varð fjórum sinnum enskur meistari með Lundúnaliðinu og þrisvar sinnum bikarmeistari. Þá lék hann 66 landsleiki fyrir England og skoraði fimm mörk.

Þjálfaraferill Adams hefur verið hálf rislítill en hann stýrði áður Wycombe Wanderers, Portsmouth og Gabala frá Aserbaídsjan með litlum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×