Íslenski boltinn

Skoraði sprellimark í fyrsta leiknum fyrir KR | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Danski framherjinn Tobias Thomsen lék sinn fyrsta leik fyrir KR þegar liðið vann 4-1 sigur á Þór Ak. í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins í gær.

Markið var í skrautlegri kantinum. Á 38. mínútu fékk Thomsen boltann hægra megin í vítateig Þórs og lét vaða með vinstri fæti. Skotið var ekkert sérstakt, beint á Aron Birki Stefánsson, markvörð Þórs, sem missti boltann klaufalega undir sig.

Thomsen fór af velli í hálfleik eftir að hafa skorað í frumrauninni. Thomsen, sem er 24 ára, kom til KR frá AB. Honum er ætlað að fylla skarð landa síns, Morten Beck Andersen, í framlínu KR.

Kennie Chopart, Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Óskar Örn Hauksson skoruðu hin mörk KR-inga sem hafa unnið þrjá leiki í röð í Lengjubikarnum með markatölunni 14-2.

Mörkin úr leiknum í gær má sjá í spilaranum hér að ofan.

Átta-liða úrslitunum lýkur í kvöld með þremur leikjum. KA tekur á móti Selfossi, Grindavík sækir ÍA heim og Breiðablik og FH eigast við.

Leikur Breiðabliks og FH verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 HD.


Tengdar fréttir

KR í undanúrslit Lengjubikarsins

KR vann þægilegan sigur á Þór, 4-1, í 8-liða úrslita Lengjubikarsins í knattspyrnu í dag en leikurinn fór fram í Frostaskjólinu vestur í bær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×