Innlent

Rúm fjögur þúsund kynferðisbrot tilkynnt á tíu árum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lögregla hefur skráð 4.183 kynferðisbrot á síðustu tíu árum.
Lögregla hefur skráð 4.183 kynferðisbrot á síðustu tíu árum. Vísir/Eyþór
Fleiri kynferðisbrot voru skráð í málaskrárkerfi lögreglunnar á síðasta ári en öll ár frá árinu 2007 að árinu 2013 undanskildu. Alls hafa samtals verið tilkynnt 4.183 kynferðisbrot á síðustu tíu árum.

Þetta kemur fram í svari Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

Alls var 501 kynferðisbrot skráð á síðasta ári. Þau voru 442 árið 2015, 419 árið 2013, 731 árið 2013, 367 árið 2012, 365 árið 2011, 323 árið 2010, 318 árið 2009, 368 árið 2008 og 349 árið 2007.

Tölurnar eru þó settar fram með þeim fyrirvara að tölur fyrir árið 2016 séu til bráðabirgða. Eru þær teknar úr málaskrárkerfi lögreglunnar þann 13. mars síðastliðinn.

Árið 2013 voru þó óvenju mörg brot skráð vegna átaks í málaflokknum „kaup á vændi“ . Voru þá 165 brot skráð í þeim flokki samanborið við fjögur til 24 öll hin árin.

Þá voru tilkynnt kynferðisbrot gegn börnum óvenju mörg sama ár og var um að ræða fleiri eldri mál en áður að því er segir í svari dómsmálaráðherra.

Í svarinu segir að líkleg skýring á því sé umræða sem skapaðist í samfélaginu í framhaldi af umfjöllun fjölmiðla um málaflokkinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×