Innlent

Ráðin framkvæmdastjóri undirbúnings hátíðahalda aldarafmælis fullveldis Íslands

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri vegna undirbúnings hátíðahalda í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Ragnheiður hefur undanfarin ár starfað sem menningarfulltrúi Eyþings og sem verkefnastjóri uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra, en hún hefur tíu ára reynslu af störfum á vettvangi menningar og lista að því er fram kemur í tilkynningu frá skrifstofu Alþingis.

„Ragnheiður Jóna lauk MA-prófi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og BA-prófi í nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri.

Starf framkvæmdastjóra var auglýst laust til umsóknar 4. febrúar sl. Alls bárust 79 umsóknir um starfið. Capacent var falin umsjón ráðningarferlisins og sá Auður Bjarnadóttir ráðgjafi um skipulagningu og framkvæmd þess.

 

Þingsályktun um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands var samþykkt á Alþingi í október 2016 og afmælisnefndin kjörin í desember 2016. Verkefni nefndarinnar er að undirbúa viðburði, verkefni og hátíðarhöld allt árið 2018, þegar öld er liðin frá því að íslenskt ríki, sjálfstætt, frjálst og fullvalda, var á ný stofnað með sambandslögunum 1918.

Í nefnd um aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands sem kjörin var af Alþingi 22. desember 2016 eru: Einar K. Guðfinnsson, Þórunn Sigurðardóttir, Einar Brynjólfsson, Þorsteinn Sæmundsson, Páll Rafnar Þorsteinsson, Guðlaug Kristjánsdóttir og Kristján Möller,“ segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×