Erlent

Nunes stígur til hliðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GEtty
Devin Nunes, repúblikani og formaður þingnefndar fulltrúadeildarinnar um njósnamál, ætlar ekki að koma að rannsókn nefndarinnar á afskiptum stjórnvalda í Rússlandi af forsetakosningunum í Bandaríkjunum í fyrra. Demókratar hafa sagt hann of tengdan Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, en meðal þess sem nefndin og Alríkislögregla Bandaríkjanna rannsaka er hvort að starfsmenn framboðs Trump hafi aðstoðað Rússa.

Nunes hefur verið sakaður um að vinna að því að vernda hagsmuni forsetans í stað þess að vinna að sjálfstæðri rannsókn á háttalagi ríkisstjórnarinnar.

Þá er siðferðisnefnd þingsins að kanna hvort að Nunes hafi brotið reglur um uppljóstrun leynilegra upplýsinga, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Sjá einnig: Sakar Nunes um að reyna að dreifa athygli frá tengslum Trump við Rússa

Sjálfur segir Nunes að ásakanir um að hann hafi mögulega brotið reglur séu rangar og til komnar af pólitískum ástæðum. Hann segist ætla að sinna áfram öllum öðrum skyldum sínum sem formaður nefndarinnar.

Þingmaðurinn Mike Conaway mun setjast í formannssæti nefndarinnar þegar hún fjallar um málið sem um ræðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×