Körfubolti

Jóni Arnóri blæddi í baráttunni við Keflavík | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Arnór Stefánsson, leikmaður KR, fékk þungt högg á andlitið eftir aðeins tvær og hálfa mínútu í fyrstu undanúrslitaviðureign KR og Keflavíkur í DHL-höllinni í undanúrslitum Domino´s-deildar karla í körfubolta. KR vann leikinn örugglega.

Jón Arnór sótti inn á teiginn hjá Keflavík þar sem Guðmundur Jónsson, leikmaður gestaliðsins, stökk upp á móti Jóni og rak olnbogann í andlitið á landsliðsmanninum með þeim afleiðingum að Jón Arnór steinlá. Það byrjaði að blæða hressilega úr Jóni sem þurfti að fá aðhlynningu sjúkraþjálfara KR.

Ekkert var dæmt á atvikið og fór Keflavík í sókn en KR var 5-2 yfir þegar þetta gerðist. Jón Arnór skoraði tíu stig í leiknum auk þess sem hann gaf fimm stoðsendingar og tók þrjú fráköst. Alls skoruðu sex leikmenn KR tíu stig eða meira í sannfærandi 90-71 sigri Íslandsmeistaranna.

Liðin mætast næst í Sláturhúsinu í Keflavík á mánudagskvöldið þar sem Suðurnesjamenn verða að vinna ætli þeir ekki að lenda 2-0 undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×