Íslenski boltinn

Víðir samdi við Þrótt: "Kemur til Þróttar klyfjaður reynslu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víðir Þorvarðarson í leik með ÍBV á sínum tíma á verðandi heimavelli sínum í Laugardalnum.
Víðir Þorvarðarson í leik með ÍBV á sínum tíma á verðandi heimavelli sínum í Laugardalnum. Vísir/Vilhelm
Víðir Þorvarðarson hefur ákveðið að skipta um lið í fótboltanum en Eyjamaðurinn er þó ekki á leiðinni í Pepsi-deildina aftur í það minnsta ekki fyrr en næsta haust.

Víðir fékk með Fylkisliðinu í fyrra en hefur nú skrifað undir tveggja ára samning við Inkasso lið Þróttar. Þróttur féll ásamt Fylki úr Pepsi-deildinni í fyrrahaust. Þróttarar segja frá þessu á heimasíðu sinni.

Víðir Þorvarðarson er 24 ára framherji sem er alinn upp í ÍBV. Hann skoraði 3 mörk í 13 leikjum í Pepsi-deildinni síðasta sumar og hefur alls skorað 19 mörk í 112 leikjum í efstu deild á Íslandi. 82 af þessum leikjum spilaði hann fyrir ÍBV.

„Það er alltaf gaman að fá til okkar bráðunga reynslubolta. Víðir kemur til Þróttar klyfjaður reynslu frá spilamennsku sinni með ÍBV, Stjörnunni og Fylki. Hann er kvikur, nettur, skapandi og skruggufljótur. Þetta er skeinuhættur leikmaður að okkar skapi og hinir frábæru Köttarar eiga eftir að elska kappann. Hann smellpassar við hjartað í Reykjavík,“ segir Ótthar Sólberg Edvardsson, framkvæmdastjóri Þróttar í viðtali við heimasíðu félagsins.

„Víðir mætir til leiks með mikil gæði í farteskinu og við vorum sérstaklega ánægðir með hversu mikla löngun hann sýndi til að spila með Þrótti. Það verður spennandi að sjá Víði sprikla í Laugardalnum. Hann er litríkur leikmaður og skemmtilegur á velli. Stórhættulegur í návígjum og með tækni og hæfileika, sem getur splundrað vörnum andstæðinga,“ segir Gregg Oliver Ryder, þjálfari Þróttar.

Víðir er eitt af síðustu púslunum í leikmannahóp Þróttar fyrir sumarið í Inkasso-deildinni, en til liðsins á undirbúningstímabilinu eru komnir Birkir Þór Guðmundsson frá Aftureldingu, Daði Bergsson frá Val, Grétar Sigfinnur Sigurðarson frá Stjörnunni, Sveinbjörn Jónasson frá KH og Viktor Jónsson frá Víkingi Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×