Körfubolti

Taktík Israels Martin gagnrýnd: Hann einn ber ábyrgð á því að Tindastóll tapaði þessum leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Athygli vakti hvernig Israel Martin, þjálfari Tindastóls, dreifði mínútunum í leiknum gegn Keflavík í gær.

Allir 12 leikmennirnir á skýrslu hjá Tindastóli komu við sögu í leiknum. Enginn leikmaður liðsins spilaði minna en fimm mínútur og allir nema einn tóku skot.

Domino's Körfuboltakvöld var sent beint út frá TM-höllinni í Keflavík. Heimamennirnir Jón Halldór Eðvaldsson og Kristinn Friðriksson voru gestir Kjartans Atla Kjartanssonar og þeir voru afar undrandi á taktík Martins.

„Ég skil ekki þennan leik,“ sagði Kristinn í hálfleik.

„Þú ert með 15 mínútur af bekknum hjá Keflavík en tæplega 40 hjá Stólunum. Hvað er að gerast hérna? Það eru leikmenn sem ég aldrei séð áður sem eru að klára sóknir. Finnbogi [Bjarnason], sem er búinn að skjóta 21 skoti í allan vetur, er búinn að taka fjögur skot í kvöld.“

Sérfræðingarnir voru alveg jafn undrandi eftir leikinn, sem Keflavík vann 86-80.

„Það er svo margt sem hann gerir sem mér finnst algjörlega galið,“ sagði Jón Halldór.

Meðal þess sem strákarnir í Körfuboltakvöldi furðuðu sig á var þegar Viðari Ágústssyni var skipt út af, strax eftir að hann fiskaði fimmtu villuna á Hörð Axel Vilhjálmsson, leikstjórnanda Keflavíkur.

„Honum er skipt út af fyrir mann sem er að spila þrjár mínútur að meðaltali í leik. Það er bara einn maður sem klikkar í þessum leik og það er þjálfarinn,“ sagði Kristinn forviða.

„Hann [Martin] tapaði þessum leik. Það er ósköp einfalt. Þessi taktík sem hann mætti með í Keflavík var gjörsamlega galin. Hann einn ber ábyrgð á því að Tindastóll tapaði þessum leik,“ sagði Jón Halldór.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×